Tók brjálæðiskast inni á heimili

Töluvert annríki var hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í gærkvöldi og nótt. Óskað var eftir aðstoð lögreglu í Grafarvogi á áttunda tímanum í gærkvöldi eftir að ölvuð og æst kona, sem var gestkomandi í heimahúsi, hafði ráðist á húsráðandann, sem var vinkona hennar.

Var konan handtekin og vistuð í fangageymslu þar til hægt verður að ræða við hana.

Einnig baðst beiðni um aðstoð lögreglu vegna 17 ára stráks sem, um eittleytið í nótt, hafði  tekið brjálæðiskast inni á heimili og skemmt mikið af innanstokksmunum. Var strákurinn farinn þegar lögreglan kom á staðinn, en málið verður rannsakað frekar að því er segir í dagbók lögreglu.

Þá var tilkynnt um umferðarslys á Suðurlandsvegi við Rauðavatn rétt fyrir eitt í nótt. Hafði ökumaður misst stjórn á bifreið sinni, sem hafnaði utanvegar og á ljósastaur. Var hann fluttur með sjúkrabifreið á slysadeild, en meiðsli hans reyndust lítil sem engin. Er ökumaðurinn grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna og var hann vistaður í fangageymslu.

Nokkur önnur tilfelli þar sem grunur leikur á akstri undir áhrifum áfengis og fíkniefna komu einnig inn á borð lögreglu og var m.a. kvartað yfir ökumanni í miðbænum á þriðja tímanum sem var ítrekað að þenja vél bifreiðar. Við afskipti lögreglu kom í ljós að ökumaðurinn var mjög ölvaður og einnig undir áhrifum fíkniefna. Var hann því vistaður í fangelsi vegna ástands síns að sýnatöku lokinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert