Tónleikaflóð fram undan

Mörgum finnst tilheyra í aðdraganda jólanna að sækja tónleika, sem …
Mörgum finnst tilheyra í aðdraganda jólanna að sækja tónleika, sem margir verða í Hörpu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lauslega talið á miðasölusíðunum midi.is og tix.is er þegar búið að auglýsa yfir þrjátíu jólatónleika, sem verða á dagskrá frá lokum nóvember og fram að jólum og fjöldi bætist væntanlega við á næstunni.

Þá eru ekki taldir með þeir fjölmörgu tónleikar sem haldnir eru af kórum og hvers konar áhugafólki í félagsheimilum, kirkjum og safnaðarheimilum víða um land.

„Það er uppselt á tvenna tónleika hjá mér og við erum að hefja sölu á þeim þriðju,“ segir Björgvin Halldórsson tónlistarmaður. Segja má að hann sé nokkurs konar guðfaðir jólatónleika hér á landi enda fáir haldið þá jafn marga og Björgvin.

„Þetta byrjaði um aldamótin hjá mér en Jólagestir Björgvins verða haldnir núna í ellefta sinn en í fyrsta sinn í Hörpu,“ segir hann. Jólatónleikar Björgvins hafa alltaf verið í Laugardalshöllinni og því töluverð viðbrigði að færa sig yfir í Hörpu. Spurður um gífurlega fjölgun jólatónleika segir hann tónleikum og hvers kyns viðburðum almennt hafa fjölgað hér landi.

„Þetta helst í hendur við samdrátt í útgáfu á geisladiskum og plötum með tilkomu efnisveitna á borð við Spotify. Fjölgunin er ekki bara í jólatónleikum heldur viðburðum allt árið. Það er bara þannig að þeir fiska sem róa.“

Miðasala gengur víða vel

Farið gæti svo að Björgvin þyrfti að bæta við fjórðu tónleikunum hjá sér en miðasala á flesta viðburði í Hörpu gengur vel, að sögn Söndru Sifjar Morthens, sölustjóra ráðstefnusviðs Hörpu. Fjöldi viðburða í húsinu er svipaður í ár og undanfarin ár í jólamánuðinum en búið er að bóka ellefu mismunandi jólatónleika. Nokkrir þeirra verða haldnir oftar en einu sinni.

Á Akureyri er sömu sögu að segja en þar er allt að seljast upp. Kristín Sóley Björnsdóttir, viðburðastjóri Menningarfélags Akureyrar, segir að fernir jólatónleikar séu þegar bókaðir í Hofi.

„Þetta eru fjórir ólíkir viðburðir sem verða oftar en einu sinni svo tónleikarnir eru fleiri,“ segir Kristín. Hún bendir jafnframt á að nú fari hver að verða síðastur að útvega sér miða á tónleikana.

„Miðasalan hefur gengið mjög vel hjá okkur og það eru ekki mörg sæti laus. Það fer því hver að verða síðastur að næla sér í miða.“

Jólavertíðin í Hofi hefst þó ekki á eiginlegum tónleikum heldur á ballettinum Þyrnirós undir tónum Tsjajkovskíjs.

„Í fyrra var Hnotubrjóturinn fluttur á jólatónleikum Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands en í ár er það Þyrnirós og það er St. Petersburg Festival Ballet undir stjórn Marius Petipa sem sýnir,“ segir Kristín.

Miðar rjúka út

Heiðrún Unnarsdóttir, miðasölustjóri hjá Tix, segir enn verið að taka við skráningu viðburða og því erfitt að segja nákvæmlega til um hvort jólatónleikar verði fleiri í ár en í fyrra.

„Ég hugsa að þeir verði ekki færri og býst við að þeir verði ívið fleiri. Nú þegar eru komnir inn 93 tónleikar hjá okkur og við erum enn að bæta við viðburðum en þeir voru alls 110 í fyrra,“ segir Heiðrún og vekur athygli á að inni í þessari tölu séu líka tónleikaraðir og aukatónleikar.

Miðasala gengur mjög vel að hennar sögn og á stærri viðburði svo sem Baggalút og Jólavini Björgvins seljist oft upp samdægurs.

„Ég tek þessa viðburði sem dæmi en miðar á þá fara oft út sama dag og þeir fara í sölu. Annars er algengt að miðar á jólatónleika seljist upp á viku. Miðar á Emmsjé Gauta hafa til dæmis rokið út og hann bætt við þremur aukasýningum. Eins er mikill áhugi á aðventutónleikum Dimmu og Skálmaldar sem eru í Sjallanum og Spot,“ segir Heiðrún en bæði tónleikar Emmsjé Gauta og viðburður Dimmu og Skálmaldar eru nýjung í jólatónleikaflóðinu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert