Ástæðulaust að aflýsa fluginu

Flugvél Air Berlin.
Flugvél Air Berlin. AFP

Isavia skilur ekki hvers vegna Air Berlin ákvað að aflýsa flugi sínu til Íslands í gærkvöldi. „Við ítrekuðum það við flugfélagið að þessar aðgerðir snerust bara að þessari tilteknu vél. Við sjáum enga ástæðu til þess að aflýsa flugi á þennan hátt,“ segir Guðni Sigurðsson, upplýsingafulltrúi Isavia.

Fyrirtækið hefur verið í samskiptum við Air Berlin undanfarið eftir að hafa kyrrsett flugvél flugfélagsins í síðustu viku en engin niðurstaða er komin í málið enn þá. Guðni veit ekki til þess að flugvélar Air Berlin hafi verið kyrrsettar á öðrum flugvöllum.

Air Berlin hefur ekki flogið til Íslands síðan á fimmtudagskvöld. Eftir að vélin sem átti að fara til Düsseldorf var kyrrsett fór ein vél flugfélagsins til Berlínar sama kvöld.

Frá Flugstöð Leifs Eiríkssonar.
Frá Flugstöð Leifs Eiríkssonar. mbl.is/Ómar Óskarsson

Íslendingar sem áttu að fljúga með Air Berlin til Íslands í gærkvöldi kvörtuðu yfir lélegri upplýsingagjöf Isavia eftir að í ljós kom að fluginu hafði verið aflýst með skömmum fyrirvara.

Guðni segir að Isavia tilkynni á vef Keflavíkurflugvallar, sem er þeirra upplýsingavefur, ef flugi er aflýst um leið og upplýsingar koma frá flugþjónustufyrirtækinu sem vinnur fyrir hvert flugfélag.

Hann bendir á að lesa megi um réttindi farþega á vef Samgöngustofu þegar kemur að málum sem þessum.

Keflavíkurflugvöllur.
Keflavíkurflugvöllur. Ljósmynd/Isavia

Skýr lagaheimild 

Air Berlin telur aðgerðir Isavia ólögmætar og að sögn Guðna hefur flugfélagið talað um þýsku greiðslustöðvunarlögin í viðræðum sínum við Isavia. „Það er mjög einfalt mál að þýsk lög gilda ekki á Íslandi. Á Íslandi gilda íslensk lög og það er skýr lagaheimild til rekstaraðila flugvallar að kyrrsetja flugvél ef gjöld hafa ekki verið greidd,“ greinir Guðni frá og bendir á grein 136 í lögum um loftferðir.

Hann bendir á að einu sinni áður hafi loftfar verið kyrrsett hérlendis, eða árið 2012, og það mál hafi farið fyrir héraðsdóm á Íslandi. „Það var skýr niðurstaða að það væri heimild í lögum til að gera þetta.“

Spurður hvort Air Berlin hafi hótað að höfða mál gegn Isavia kveðst hann ekki hafa heyrt af því en telur möguleika á að flugfélagið fari þá leið.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert