Funda um framtíð Herjólfs

Samningsdrög um rekstur nýrrar Vestmannaeyjaferju sem kemur hingað til lands …
Samningsdrög um rekstur nýrrar Vestmannaeyjaferju sem kemur hingað til lands næsta sumar verða rædd á fundi samgönguráðherra, Vegagerðarinnar og bæjarstjóra Vestmannaeyja í dag. mbl.is/Sigurður Bogi

Fulltrúar samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins og Vegagerðarinnar funda með bæjarstjóra Vestmannaeyjabæjar og ráðgjöfum bæjarins síðdegis í dag. Á fundinum verða rædd samningsdrög um rekstur nýrrar Vestmannaeyjaferju sem kemur hingað til lands næsta sumar.

Greint var frá því í gær að Vest­manna­eyja­bær muni taka við rekstri Herjólfs þegar ný ferja verður tek­in í gagnið næsta sum­ar. Samn­ing­ur þess efn­is er á loka­metr­un­um að sögn Jóns Gunn­ars­son­ar sam­gönguráðherra.

Frétt mbl.is: Bærinn tekur við rekstrinum í sumar

Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum, segir samninginn ekki vera kominn jafn langt og ráðherra greinir frá. „Það er nú ekki komið svo langt að við séum að taka við rekstrinum, en það er einlægur vilji báðum megin við borðið til að vinna málið áfram,“ segir Elliði í samtali við mbl.is.

„Við viljum vinna þetta í sameiningu“

Elliði vonast til að með fundinum færist Vestmannaeyjabær skrefi nær að taka við rekstri Herjólfs. „Væntingar mína eru þær að við tökum enn eitt skrefið í þá átt sem við erum að ganga í sameiningu, Vestmannaeyjabær og ríkið. Þetta eru ekki samningaviðræður tveggja viðskiptaaðila heldur eru þetta samstarfsviðræður tveggja stjórnvalda. Þannig að það er ekki verið að spila neinn póker í þessu, það er verið að skoða hvaða leiðir er hægt að fara til þess að bæta samgöngur og vinna okkur út úr þeirri stöðu að vera sífellt í einhverjum átökum um þetta mikilvæga mál. Við viljum vinna þetta í sameiningu.“

Elliði Vignisson, bæjarstjóri Vestmannaeyja.
Elliði Vignisson, bæjarstjóri Vestmannaeyja. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Ýmislegt hefur gengið á í rekstri Herjólfs síðastliðnar vikur og tvisvar hefur þurft að fresta viðgerð á skipinu vegna vandamála sem hafa komið upp með afhendingu varahluta. Elliði sagði í samtali við mbl.is í gær að mik­il­vægt væri að bregðast við þeirri stöðu sem nú væri kom­in upp, meðal annars með því að bæta aðrar samgöngur til og frá Eyjum með aðkomu ríkisins, til dæmis með ríkisstyrktum flugsamgöngum.

Frétt mbl.is: Ríkið efli flugsamgöngur til Eyja

Vinna að framtíðarsýn um samgöngur milli lands og Eyja

Elliði segir að með aðkomu Vestmannaeyjabæjar að rekstri Herjólfs muni staða bæjarins styrkjast almennt í samgöngumálum. „Ef þetta fer sem horfir og Vestmannaeyjabær tekur við rekstri Herjólfs, þá erum við komin í þá stöðu að vera við borðið þegar þessi mikilvægu mál eru rædd. Þar með talið þegar Herjólfur verður fyrir frátöfum, að ákveða þá viðbrögð.“

Aðrar samgöngur til og frá Eyjum verða ekki ræddar á fundinum í dag, eða fyrirhugaðar viðgerðir á skipinu. Eins og staðan er núna á Herjólfur að fara í slipp í janúar. „Við erum að vinna í framtíðarsýninni,“ segir Elliði.

Samkvæmt upplýsingum frá samgönguráðuneytinu er ekki þess að vænta að gengið verði frá samningi í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert