Konur hætta að fá greitt 30. október

Íslendingar eru í níunda sæti á lista yfir mestan launamun …
Íslendingar eru í níunda sæti á lista yfir mestan launamun kynjanna í Evrópu, samkvæmt Expert Market. mbl.is/Styrmir Kári

Kynbundinn launamunur í Evrópu er mestur í Eistlandi en níundi mestur á Íslandi. Þetta kemur fram í árlegri skýrslu bresku vefsíðunnar Expert Market.

Skýrslan er byggð á launamun kynjanna í Evrópu. Þar er birt dagsetning í samræmi við launamuninn sem sýnir hvenær konurnar hætta að fá borgað fyrir vinnu sína.

Notuð er nýjasta tölfræðin frá Eurostat, sem er hagstofa Evrópusambandsins, sem sýnir þann ógreidda vinnutíma sem jafngildir launamuninum í hverju landi fyrir sig. Þannig er sýnt fram á hvenær ársins konur byrja að vinna launalaust á hverju ári.

Konur í Eistlandi hættu að fá greitt 23. september, sem jafngildir því  að þær fá ekki greitt í yfir þrjá mánuði, að því er kemur fram í skýrslunni. Kynbundinn launamunur þar í landi var 27% á þessu ári og hefur lagast um þrjú prósentustig frá því í fyrra þegar hann var 30%.

Þessi tafla sýnir launamun kynjanna í Evrópu.
Þessi tafla sýnir launamun kynjanna í Evrópu. Kort/Expert Market

17,5% launamunur á Íslandi

Hér á landi mældist launamunurinn 17,5%, samkvæmt Expert Market, og miðað við það hætta íslenskar konur að fá greitt 30. október næstkomandi. Þetta er mesti kynbundni launamunurinn á Norðurlöndunum en Finnland er skammt undan Íslandi með 17,3% launamun. Svíar standa sig aftur á móti best Norðurlandanna með 14% launamun.

Minnsti kynbundni launamunurinn í Evrópu er á Ítalíu og í Lúxemborg, eða 5% í báðum löndunum. Það jafngildir því að konur þar í landi hætta að fá borgað fyrir vinnu sína 13. desember.

Í skýrslunni kemur einnig fram að kynbundinn launamunur í Bretlandi er 21% sem jafngildir því að konur þar í landi hætti að fá greitt 15. október. Launamunurinn í Bretlandi er sá fimmti mesti í Evrópu. Fyrir ofan landið eru Eistland, Tékkland, Þýskaland og Austurríki.

Óleiðréttur launamunur 16,1% samkvæmt Hagstofunni

Í nýjum tölum Hagstofu Íslands kemur fram að óleiðréttur launamunur kynjanna var 16,1% árið 2016 en hafði verið 17% árið áður.

Launamunurinn var rúmlega 16% bæði á almennum vinnumarkaði og hjá ríkisstarfsmönnum en rúm 8% hjá starfsmönnum sveitarfélaga þar sem launadreifing er almennt minni.

Reiknað er tímakaup karla annars vegar og kvenna hins vegar og mismunur þess sem hlutfall af meðaltímakaupi karla túlkað sem óleiðréttur launamunur. Tímakaupið nær til grunnlauna, fastra álags- og bónusgreiðslna auk yfirvinnu.

Í tölum Hagstofunnar kemur einnig fram að rúmlega tvisvar sinnum algengara er að karlar hafi yfir milljón á mánuði

Árið 2016 var fimmta hver kona með heildarlaun undir 400 þúsund krónum á mánuði fyrir fullt starf en fjórtándi hver karl.

Þá voru tæplega 15% karla með heildarlaun yfir milljón á mánuði en tæplega 6% kvenna. Helmingur kvenna var með laun undir 525 þúsund krónum en miðgildi heildarlauna karla var 643 þúsund krónur á mánuði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert