FME kærir gagnaleka frá Glitni

Gögnin eru sögð ná til þúsunda viðskiptavina Glitnis.
Gögnin eru sögð ná til þúsunda viðskiptavina Glitnis. Friðrik Tryggvason

Embætti héraðssaksóknara barst í síðustu viku kæra frá Fjármálaeftirlitinu vegna gagnaleka úr þrotabúi Glitnis, en Stundin og Reykjavík Media hafa meðal annars fjallað um málið að undanförnu þar sem áhersla hefur verið lögð á viðskipti Bjarna Benediktssonar forsætisráðherra fyrir hrun fjármálakerfisins. Ólafur Hauksson héraðssaksóknari staðfestir við mbl.is að kæran hafi borist, en Rúv greindi frá málinu fyrr í dag.

Áður hafði embættinu borist kæra frá Fjármálaeftirlitinu vegna gagnaleka frá Glitni, en það tengdist umfjöllun um fjármál Hæstaréttardómara. Segir Ólafur að rannsókn á því máli hafi verið komin af stað og þetta mál muni renna saman við fyrra málið.

Spurður hvort einhver tengsl séu á milli málanna segir Ólafur að það sé eitt þeirra atriða sem nú séu í skoðun hjá embættinu.

Þegar upp koma mál sem tengjast mögulegum brotum á bankaleynd þarf kæra þess að lútandi fyrst að berast frá Fjármálaeftirlitinu áður en héraðssaksóknari tekur slík mál til rannsóknar.

Í kjölfar umfjöllunar Stundarinnar og Reykjavík Media um gögnin sem um ræðir fór Glitnir Holdco fram á lögbann á umfjöllun upp úr gögnunum. Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu féllst á lögbannið og í kjölfarið höfðaði Glitnir Holdco staðfestingarmál fyrir héraðsdómi. Verður málið þingfest á þriðjudaginn í næstu viku.

Í frétt Rúv er haft eftir Unni Gunnarsdóttur, forstjóra Fjármálaeftirlitsins, að kæran byggist á rökstuddum grun um brot gegn þagnarskyldu, öðru nafni bankaleynd, sem kveðið er á um í 58. grein laga um fjármálafyrirtæki.

58. gr.Þagnarskylda. 

Stjórnarmenn fjármálafyrirtækis, framkvæmdastjórar, endurskoðendur, starfsmenn og hverjir þeir sem taka að sér verk í þágu fyrirtækisins eru bundnir þagnarskyldu um allt það sem þeir fá vitneskju um við framkvæmd starfa síns og varðar viðskipta- eða einkamálefni viðskiptamanna þess, nema skylt sé að veita upplýsingar samkvæmt lögum. Þagnarskyldan helst þótt látið sé af starfi.

Sá sem veitir viðtöku upplýsingum af því tagi sem um getur í 1. mgr. er bundinn þagnarskyldu með sama hætti og þar greinir. Sá aðili sem veitir upplýsingar skal áminna viðtakanda um þagnarskylduna. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert