Framkvæmdir við stærsta stúdentagarð landsins hefjast um áramótin

Norræna húsið og Stúdentagarðar, Félagsstofnun stúdenta
Norræna húsið og Stúdentagarðar, Félagsstofnun stúdenta mbl.is/Ómar Óskarsson

Félagsstofnun stúdenta og Ístak undirrita í dag samning um byggingu stærsta stúdentagarðs Íslands á lóð HÍ við Sæmundargötu 21 í Reykjavík. FS óskaði eftir tilboðum í hönnun og byggingu stúdentagarðanna frá fjórum aðilum í apríl á þessu ári. Ákveðið var að ganga til samninga við ÍSTAK, en kostnaður við fullbúið verk er áætlaður 4,6 milljarðar.

Tæplega 250 fullbúnar leigueiningar verða á stúdentagarðinum, en stefnt er að því að framkvæmdir hefjist um áramótin og verklok eru áætluð um áramótin 2019/2020. Samningurinn verður undirritaður í Stúdentakjallaranum á Háskólatorgi klukkan 15 í dag. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Félagsstofnun stúdenta. 

Fullnaðarhönnun stendur yfir, en hönnunin verður í anda hugmyndafræði deilihúsnæðis, að því er fram kemur í tilkynningunni. Fyrir utan paraíbúðir (37 fm) og einstaklingsíbúðir (27 fm) verður nýtt íbúðaform kynnt á stúdentagörðunum. Um er að ræða 8-9 herbergja íbúðir sem skipulagðar eru eftir hugmyndafræði deilihúsnæðis. Hvert herbergi er rúmgott (17 fm) með sérbaðherbergi en hver íbúð deilir með sér forstofu og eldhúsi auk samtengdrar setustofu og alrýmis. Til sameiginlegrar notkunar fyrir stúdentagarðinn í heild sinni verða stærri samkomusalur, rými til líkamsræktar, þvotta og þurrkunar, hjólageymslur og almennar geymslur. Sameiginlegur garður verður við stúdentagarðana þar sem verður boðið upp á útiaðstöðu með útigrillum, setuaðstöðu og útiæfingatækjum.

„Það er okkur mikið ánægjuefni að hefja þetta mikilvæga verkefni sem mun létta nokkuð á þeim húsnæðisskorti sem stúdentar finna fyrir. Með byggingu þessa nýja stúdentagarðs munum við ná markmiði okkar um byggingu tæplega helmings þeirra leigueininga sem við stefnum á að byggja á næstu fimm árum fyrir okkar hóp. Við erum líka einstaklega spennt fyrir nýja íbúðaforminu okkar þar sem einstaklingar eða jafnvel vinahópar geta sótt um að búa saman og deila rýmum eins og eldhúsi og setustofu. Við höfum fulla trú á þessu formi búsetu og erum þess fullviss að það muni verða jafnvinsælt hér og það er að verða í Evrópu,“ er haft eftir Guðrúnu Björnsdóttur, framkvæmdastjóra FS, í tilkynningunni

„Þetta er mikið og stórt framtak hjá FS og aðdáunarvert að sjá hvernig sjálfseignarstofnum hefur byggt upp svo öflugt leigufélag sem FS er. Verkið sjálft er krefjandi bæði í hönnun og framkvæmd og ÍSTAK hefur fengið til liðs við sig Yrki Arkitekta, Lotu og VHÁ verkfræðistofur við hönnun byggingarinnar. Verkið fellur einnig vel að verkefnaflóru ÍSTAKS sem nú er með um 370 starfsmenn og sterka og víðtæka verkefnastöðu,“ er haft eftir Karli Andreassyni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert