Frá Vivienne Westwood í síldina á Sigló

Silfur hafsins. Hálsfesti úr silfri með mislitum tréperlum.
Silfur hafsins. Hálsfesti úr silfri með mislitum tréperlum.

Þótt Kristína R. Berman listhönnuður sé önnum kafin í síldarvinnslunni í Íshúsi Hafnarfjarðar þessa dagana gaf hún sér tíma til að líta upp og spjalla stundarkorn um nýjasta viðfangsefnið. „Síldarævintýrið hófst á Siglufirði fyrir tæpum tveimur árum og hefur síðan vaxið umtalsvert fiskur um hrygg,“ segir hún sposk á svip. Og á við sitt eigið síldarævintýri vel að merkja.

Kristína hefur samt aldrei á ævinni saltað síld í tunnu. Hún útskrifaðist sem textílhönnuður frá Listaháskóla Íslands árið 2001 og hafði þá verið í árs starfsnámi hjá tískudrottningunni Vivienne Westwood í London. Síðan hefur hún fengist við eitt og annað, mest leikmynda- og búningahönnun fyrir leikhús og kvikmyndir, hönnun og vöruþróun í nafni KRBerman, magadanskennslu og námskeiðahald. Og fleira.

„Ég finn mér alltaf eitthvað skemmtilegt að gera, læt hlutina svolítið ráðast og hoppa oft á milli verkefna. Síldin hefur þó haldið mér við efnið undanfarið, enda er ég mjög áhugasöm um framtíð hennar og sleppi ekki af henni hendinni í bráð,“ segir Kristína brosandi.

Síld úr textíl, tré, silfri og silki

Kristína á vinnustofu sinni í Íshúsi Hafnarfjarðar.
Kristína á vinnustofu sinni í Íshúsi Hafnarfjarðar. mbl.is/Árni Sæberg



Hún hefur ýmislegt á prjónunum varðandi síldina og jafnvel aðrar fisktegundir. Síldirnar hennar, sem eru úr textíl, tré, silfri og silki, hannar hún og framleiðir í vinnustofu sinni í fyrrnefndu húsi í Hafnarfirði þar sem áður var starfrækt hraðfrystihús og fiskverkun en hýsir nú hönnuði og listamenn.

Síldaráhugi Kristínu vaknaði á Siglufirði, síldarhöfuðstað heimsins eins og bærinn var stundum kallaður á fjórða og fimmta áratug liðinnar aldar. Þar hefur hún verið með annan fótinn um alllangt skeið ásamt manni sínum, Má Örlygssyni forritara, og þremur börnum.

„Við búum í Reykjavík, en eigum hús á Siglufirði, flökkum á milli og dveljum yfirleitt um það bil þriðjung ársins fyrir norðan,“ segir Kristína, sem auk þess að búa til síld í mörgum myndum, hefur í tæpt ár starfað við ljósmyndavörslu á Síldarminjasafninu á Siglufirði.

Upphafssíldin. Glamúrlegur síldarpúði (síldarbangsi)með pallíettum.
Upphafssíldin. Glamúrlegur síldarpúði (síldarbangsi)með pallíettum.


Hugmyndinni að hönnunarvörum með síldarþema skaut hins vegar áður upp kollinum eða þegar hún vann í upplýsingamiðstöð fyrir ferðamenn þar nyrðra.

Hvers á síldin að gjalda?

„Túristar voru stöðugt að spyrja hvar þeir gætu séð lunda. Ég benti þeim á staði sem ég vissi um, en velti um leið fyrir mér markaðssetningunni. Af hverju lundinn hefði verið gerður svona táknrænn fyrir Ísland í augum túrista? Hvers vegna ekki síldin? Ég sá fyrir mér að vel mætti bjóða upp á síld í alls konar útfærslum rétt eins og lundann í túristabúðunum. Síðan grínaðist ég eitthvað með að hanna kannski sjálf og handsauma mjúkan og glamúrlegan „síldarbangsa“ eins og ég kalla puntpúða með pallíettum, sem ég á endanum lét verða af að gera.“

Fyndið fyrirbæri

Fjölskyldan leggur stundum lið við síldarvinnsluna á Siglufirði.
Fjölskyldan leggur stundum lið við síldarvinnsluna á Siglufirði.


Þess má geta að „síldarbangsinn“ eða mjúksíldin, sem kannski er réttari nafngift, er 45 cm á lengd og að sögn Kristínu jafn bústin og velsældarleg og hún var á síldarárunum á Siglufirði í gamla daga. „Ein hugmynd leiddi af annarri. Ég fór að hugsa um að vel mætti búa til margar, smærri síldir, raða þeim í síldartunnur og selja sem minjagripi. Þótt fólki þætti mjúksíldin fyndið fyrirbæri, áttaði ég mig á að hún yrði ekki mikil söluvara – fólk er ekkert endilega að kaupa sér mjúka síld. Hins vegar gæti hún vakið athygli og virkað sem aðdráttarafl fyrir síld í öðrum útgáfum.“

Næstu síldarafurðir Kristínar voru því í allt öðrum stíl, úr öðruvísi efnum og mun smágerðari og notadrýgri en mjúksíldin. Alvöru list- og söluvarningur; trésíld, silfursíldarhálsmen, og síldarsilkislæða.

„Trésíldin er 12 cm á lengd, úr léttum balsa og máluð silfurgrá. Hún er bæði ætluð sem hálsskraut og híbýlaprýði, og hægt er að nota eina síld eða fleiri saman í kippu. Trésíldin, eða jólasíldin, eins og ég segi stundum, sló í gegn á jólamarkaði Íshússins í fyrra. Fólk keypti heilu torfurnar til að hengja á jólapakka, jólaatré eða út í glugga heima hjá sér,“ segir Kristína, sem því næst hannaði síldarsilfurhálsmen eða silfur hafsins eins og hún kallar þau líka.

Kristína með silkislæðu sem hún handlitar í silfurgráum tónum og …
Kristína með silkislæðu sem hún handlitar í silfurgráum tónum og yfir í svart.


Menið er eins og síld í sneiðum með lituðum tréperlum á milli. Það síðasta sem kom fram á sjónarsviðið í síldarþemanu voru síldarsilkislæður í litum síldarinnar. Handlitaðar eftir kúnstarinnar reglum, silfurgráar með tónum yfir í svart.

Draumur sem dó

Allar síldarafurðirnar fást í Hjarta bæjarins, minjagripaverslun á Siglufirði, og í Síldarminjasafninu og hafa þær að sögn Kristínu fallið vel í kramið hjá erlendum ferðamönnum sem og landanum. Dagana 23.-27. nóvember verða þær einnig til sýnis og sölu á sýningunni Handverk og hönnun í Ráðhúsi Reykjavíkur.

„Ég hef einu sinni sýnt þar áður, barnasmekki árið 2011. Núorðið framleiði ég þá bara eftir pöntun. Einnig dömuullarkápur og ullarskikkjur og kórónur á börn og annað sem ég sýni á heimasíðunni minni, krberman.is. Síldin hefur tekið yfir,“ segir Kristína, sem ung átti sér draum um að verða fatahönnuður.

„Starfsnámið hjá Vivienne Westwood tók alveg ljómann af þeim draumórum. Mér fannst markaðssetningin og fjöldaframleiðslan, sem svona stórir hönnuðir eins og hún þéna mest á, afar óspennandi. Ég komst síðar að því að mér hentaði betur að vinna fyrir leikhús og gera bara eitt eintak af hverjum búningi.“

Lotta og ljósmyndavarslan

Trésíldirnar er bæði hægt að nota sem skrautmun og skartgrip.
Trésíldirnar er bæði hægt að nota sem skrautmun og skartgrip.


Kristína hefur mörg undanfarin ár verið nánast fastráðin sem búningahönnuður hjá Leikfélaginu Lottu, sem á hverju vori setur upp vinsæl barnaleikrit, mikil búningadrömu með mörgum leikurum.

Starf hennar hluta úr ári hjá Síldarminjasafninu felst í að flokka ógrynni gamalla ljósmynda, líklega meira en eitt hundrað þúsund, sem safninu hafa borist að gjöf, bera kennsl á fólkið á myndunum og koma þeim í aðgengilegar form fyrir safngesti. Til að læra til verka fór Kristína á námskeið hjá Þjóðminjasafni Íslands. Spurð hvort listamannseðlið fái þrifist í starfi sem snýst um vörslu gamalla gripa svarar hún játandi, enda sé mikilvægt að tengja ólíkar greinar, slíkt dýpki skilning manns á umhverfinu og sögunni, ekki síst síldarsögunni hvað hana áhrærir.

Kristín með börnum sínum á Siglufirði.
Kristín með börnum sínum á Siglufirði.


„Starfið hefur undið upp á sig því undanfarið hef ég einnig verið leiðsögumaður gesta um safnið og komið að daglegum rekstri. Ég er óðum að verða síldarkona,“ segir Kristína, sem með tíð og tíma ætlar að finna eigin síldum stað í fleiri söfnum og minjagripaverslunum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert