Ég er flóttamaður að hjálpa flóttamönnum

Omran finnst mikilvægt að flóttamenn læri íslensku og segir að …
Omran finnst mikilvægt að flóttamenn læri íslensku og segir að það að kunna tungumálið opni margar dyr. Ásdís Ásgeirsdóttir

Omran tekur brosandi á móti blaðamanni á kaffihúsi í Reykjavíkurborg. Við spjöllum saman á því ástkæra ylhýra því Omran talar ágætis íslensku, en segist eiga margt ólært enn. „Ég kann íslensku svona 50% en þarf að komast í 85%,“ segir hann, þessi glaðlyndi ungi maður frá Damaskus, höfuðborg Sýrlands.

„Ekki segja hvað ég er gamall, það halda allir að ég sé tuttugu og fimm,“ segir hann og hlær. Hann er í raun rúmlega þrítugur en Omran flúði stríðið heimafyrir eins og svo margir landar hans hafa þurft að gera. Eftir viðkomu í nokkrum löndum endaði hann á Íslandi, og hér hefur hann búið í tvö og hálft ár. Í dag starfar hann hjá Hveragerðisbæ og Árborg sem menningarmiðlari kvótaflóttafólks frá heimalandinu, Sýrlandi.

Sex vinir látnir í stríðinu

Omran kom til Íslands 23. janúar, 2015 og er með tímabundið dvalarleyfi í fjögur ár og eftir það getur hann sótt um ríkisborgararétt. Áður hafði Omran búið í Pétursborg í Rússlandi í fimm ár, í Tyrklandi í hálft ár og í Dubai í hálft ár.

„Ég fór átján, nítján ára til Rússlands og lærði hagfræði og ég tala líka rússnesku,“ segir Omran og lætur vel af dvölinni þar. Eftir Rússlandsdvölina fór hann aftur heim, en þegar stríðið skall á, þurfti hann að flýja. „Frændi minn býr hérna og spurði mig hvort ég vildi koma,“ svarar hann þegar spurt er um ástæðu þess að hann endaði á Íslandi.

Honum leist strax vel á land og þjóð. „Það var kalt, enda janúar. En það var allt í lagi fyrir mig, ég var vanur því frá Rússlandi, þar var ískalt. Einu sinni var þar fjörutíu stiga frost og svo er líka kalt í Sýrlandi á veturna,“ segir Omran. Hann segir þó Sýrland alltaf vera heimaland sitt.

„Það er enginn staður eins og heima,“ segir hann. „Ég get ekki farið þangað, nema að stríðið klárist,“ segir hann.

Omran lýsir ástandinu þegar hann fór. „Ég þurfti að fara frá Sýrlandi, flýja stríðið, því þeir vildu fá mig í herinn, til að fara í stríð. Ég hefði þurft að vera í hernum í alla vega tvö ár og líklega lengur. Ég þekki einn sem hefur verið í fimm ár núna. Sex bestu vinir mínir eru dánir í stríðinu,“ segir hann.

Omran vill horfa til framtíðar í stað þess að tala …
Omran vill horfa til framtíðar í stað þess að tala um stríðið. Ásdís Ásgeirsdóttir

Blaðamaður reynir að setja sig í hans spor og spyr hvernig tilfinning það sé að búa í landi þar sem stríð skellur á. „Ekki skemmtileg,“ svarar hann stutt og laggott. En heldur svo áfram með mál sitt.

„Þú getur ekkert gert. Það er mjög erfitt að fara út úr húsi. Það voru sprengingar úti. Í byrjun var ég mjög hræddur en svo varð þetta allt í lagi. Ég var í herbergi mínu með vinum mínum, kannski að spila Playstation, spjalla og djóka. Og stríðið var fyrir utan. Maður þarf að halda áfram. Svona er lífið. Ein sprengjan sprakk rétt fyrir utan, kannski 100 metra frá herberginu mínu. Og það dóu sex manns. Ég sá það og mamma byrjaði að gráta. Ég var einn heima með mömmu minni,“ segir hann en faðir hans lést af slysförum þegar Omran var fimm ára.

Tungumálið er lykillinn

Þegar allt lék í lyndi í Sýrlandi vann Omran í fyrirtæki sínu í Damaskus, en hann er grafískur hönnuður. Omran á móður á lífi sem býr enn í Damaskus, bróður í Dubai og systur í Bandaríkjunum. Hann segist gjarnan vilja fá móður sína til landsins, ef hún kýs.
Eftir komuna til Íslands fór Omran í Háskóla Íslands og hóf nám í stjórnmálafræði. „Það var erfitt fyrir mig. Og ég hugsaði að ég þyrfti að læra íslensku. Það voru margir útlendingar að spyrja mig, af hverju viltu læra íslensku? Ég segi oft, ef maður vill, getur maður það. En ég segi að tungumálið er lykillinn að samfélaginu,“ segir hann.

„Ég segi það stundum við fólk, ekki segja að eitthvað sé erfitt. Ég lærði rússnesku á sex mánuðum. Og hér fór ég strax að læra íslensku og það var mjög mikil málfræði, en mikilvægara er að byrja strax að tala málið. Ég er ekki feiminn við að spyrja og mig langar bara að læra og þá þýðir ekki að vera feiminn. Íslendingar eru dálítið feimnir, en þegar ég var búinn að læra íslensku opnuðust dyrnar. Þá breytist allt. Allir taka manni miklu betur,“ segir Omran sem hyggst fara í áframhaldandi íslenskunám.

Allir vilja hjálpa

Í vinnu sinni er Omran að aðstoða kvótafjölskyldur frá Sýrlandi; fólk sem kemur hingað allslaust úr flóttamannabúðum. Omran túlkar fyrir þau og hjálpar þeim að aðlagast íslensku samfélagi sem er svo gjörólíkt hinu sýrlenska. Hann er mjög ánægður í vinnunni og segist afar heppinn með samstarfsfólk sitt.

„Fólkið sem ég vinn með er fjölskyldan mín og þau hjálpa mér að vera með í samfélaginu. Þau hafa opnað faðminn og boðið mig velkominn. Og þar sem mig langaði svo mikið að læra íslensku, var mikilvægt að vinna með Íslendingum. Nú er ég að túlka fyrir og hjálpa kvótaflóttafólki sem er í Hveragerði og á Selfossi. Þetta eru þrjár fjölskyldur og þau eru búin að læra mikið og eru að byrja að tala íslensku en þau hafa verið hér í tíu mánuði.“

Dagurinn hjá Omran byrjar milli sjö og átta og hefst á keyrslu frá Reykjavík til Selfoss. Þar hittir hann fjölskyldurnar og hjálpar til við það sem þarf að gera, fara með þeim í viðtöl ýmiskonar, atvinnuviðtöl, viðtöl í skólum barna og fleira. Fullorðnir í þessum fjölskyldum hafa fengið vinnu í Mjólkursamsölunni og hjá Hveragerðisbæ.

„Þau koma beint úr flóttamannabúðum í Líbanon þar sem þau hafa verið fjögur ár í tjöldum,“ segir hann. „Þau fá hér nýtt líf, en það er smá erfitt. Ég hjálpa þeim af stað í nýja lífinu. Þetta er ekki erfitt fyrir börnin, þau aðlagast fljótt, en erfiðara fyrir foreldrana. Mér finnst fólkið í samfélaginu hafa tekið mjög vel á móti þeim. Þau eiga mjög góða nágranna og það er ekki hægt að segja neitt illt um fólkið á Selfossi eða í Hveragerði, þau eru ein fjölskylda,“ segir hann og segist ekki hafa upplifað neina fordóma. „Allir vilja hjálpa. Það er gott á svona litlum stöðum, það er miklu betra fyrir flóttafólk. Ef við spyrjum þau hvort þau vilji flytja til Reykjavíkur, segja þau nei.“

Kallaður broskallinn

Omran er eini Sýrlendingurinn hérlendis sem vinnur við að hjálpa öðrum Sýrlendingum. „Ég er flóttamaður að hjálpa flóttamönnum. Á ensku heitir það cultural broker,“ segir Omran og væri kannski hægt að þýða það sem menningarmiðlari. „Þau eru fjölskylda mín,“ segir hann um þessar flóttamannafjölskyldur.

„Hvenær er vinna vinna? Þetta blandast saman, lífið og vinnan. Ég vil helst ekki tala mikið um stríðið heldur hugsa bara um framtíðina og ég segi það við fólkið. Sýrlendingar elska að vinna og allir vilja vinna. En tungumálið fyrst,“ segir hann.

„Lífið er erfitt og við þurfum að hjálpa fólki. Ég elska að hjálpa fólki. Bara brosa og halda áfram. Ég er kallaður broskallinn í minni fjölskyldu. Það er hægt að breyta heiminum með brosi,“ segir hann og hlær.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert