Vill ekki skammsýni í umhverfismálum

Þórhildur hefur sterkar skoðanir á mannréttinda- og jafnréttismálum.
Þórhildur hefur sterkar skoðanir á mannréttinda- og jafnréttismálum. Mynd / Aðsend

„Ég veit hvað ég vil sjá breytast og hvað ég styð en mér finnst stundum málefni tengd pólitíkinni hér fráhrindandi fyrir ungt fólk,“ segir Þórhildur Vígdögg Kristínardóttir, sem heldur upp á 18 ára afmælið sitt í dag. Þar með öðlast hún kosningarétt.

Þórhildur gat ekki nýtt nýfenginn kosningaréttinn vegna þess að hún er í skiptinámi í Fortaleza í Brasilíu. Hún hefði þurft að taka þriggja tíma flug til Curitiba til að kjósa utan kjörfundar. 

Þórhildur segir við mbl.is að hún hafi ekki fylgst mikið með pólitík og að henni hafi fundist hún máttlítil þegar að stjórnmálum kemur. Hún segir þó að móðir hennar hafi sterkar skoðanir á pólitík og hún leggi auk þess stund á nám í Menntaskólanum í Reykjavík. Því hafi verið hálfómögulegt að heyra ekki umræður um stjórnmál.

Umhverfisvernd og jafnrétti

Þó að Þórhildur hafi ekki getað kosið að þessu sinni verður seint sagt að komið sé að tómum kofanum þegar kemur að skoðunum hennar á samfélaginu.

Það sem helst brennur á Þórhildi er aukin umhverfisvernd, jafnrétti og að allir hafi rödd. „Ég vil hafa fleiri tækifæri fyrir alla til að geta haft áhrif. Að kerfi séu einföld og aðgengileg, og fólk geti afgreitt það sem það þarf að gera í samskiptum við stofnanir fljótt og auðveldlega. Ég vil að við tökum ekki skammsýnar ákvarðanir í umhverfismálum, og að hugsað sé vel um náttúruna,“ segir hún.

Hún segir að dýravelferð sé henni hugleikin og að stutt sé við skapandi hugsun og nálgun á lausn viðfangsefna. Hún vill að námsframboð eigi að vera fjölbreytt og vandað og að námsstyrkir séu í boði.

Þórhildur hefur einnig skoðun á húsnæðismálum. „Ég hef áhuga á lausnum til að fólk geti komið þaki yfir höfuðið.“

Stjórnmálaumræða hrútleiðinleg

Þórhildur segir að umhyggju og sjálfboðaliðastarfi í samfélaginu sé ábótavant auk þess sem hún vill að stjórnmálaumræða fari fram á „venjulegu máli en sé ekki alltaf svona hrútleiðinleg“.

Hún vill aukinn stuðning við listir, vill leggja áherslu á fjölbreytt og gott heilbrigðiskerfi fyrir alla og vill að Íslendingar séu miklu duglegri á alþjóðavettvangi í vinnu og umræðu á sviði mannréttinda.

Þórhildur segir aðspurð að áhugi á stjórnmálum sé takmarkaður í hennar vinahópi, þó að eitthvað spretti upp við og við. „Ef eitthvað er talað um það er það venjulega bara hversu lélegir sumir flokkar eru og hversu illa ákveðnir einstaklingar eru að standa sig í ríkisstjórninni að okkar mati.“

Vill þroskast sem einstaklingur

Eins og fyrr segir er Þórhildur í skiptinámi í Brasilíu, en með því vonast hún til að kynnast nýrri menningu, læra nýtt tungumál og takast á við áskoranir. Hún vonast til að þroskast sem einstaklingur. „Ég held að fólk fái þannig aðeins betri sýn á heiminn og þegar allt kemur til alls erum við öll eins og viljum flest góða hluti fyrir hvert annað.

Ég vissi að mig langaði til Suður-Ameríku því mér finnst menningin þar svo áhugaverð, og Brasilía varð fyrir valinu því ég sótti um styrk þangað. Þetta var eini styrkurinn sem styrkti að fullu svo ég þurfti ekki að borga neitt. Ég bjóst einhvern veginn ekki við að fá hann því það voru svo margir sem sóttu um og hélt bara áfram með mitt líf. Fékk svo að vita nokkrum mánuðum seinna að ég hefði verið valin og var auðvitað himinlifandi yfir þessu tækifæri,“ segir Þórhildur í svari til mbl.is.

Þórhildur er í skiptinámi í Brasilíu.
Þórhildur er í skiptinámi í Brasilíu. Mynd / Aðsend
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert