Leitar að íslenskum æskuvini frá Máritíus

Steve ólst upp á Mauritius þar sem hann átti íslenskan …
Steve ólst upp á Mauritius þar sem hann átti íslenskan æskuvin að nafni Ragnar. Nú, 50 árum síðar, langar hann gjarnan að komast aftur í samband við hann. Ljósmynd/Aðsend

Þekkir þú mann að nafni Ragnar sem bjó ásamt fjölskyldu sinni á Máritíus á 7. og 8. áratugnum?

Ef svo er gætir þú komið breskri konu til aðstoðar sem langar að koma kærasta sínum á óvart á sextugsafmælinu á næsta ári með því að hafa uppi á íslenskum æskuvini hans.

Jean Reeve hafði samband við mbl.is þar sem hún óskaði eftir aðstoð við að finna íslenskan mann að nafni „Ratner.“ Eftir spjall við blaðamann er líklegra að um mann að nafni Ragnar sé að ræða.

Lærði að spila badminton hjá pabba Ragnars

Kærasti Jean heitir Steve Bumstead og er fæddur árið 1958. Steve bjó ásamt foreldrum sínum og gæluapanum Mingo í Rose Hill, úthverfi Port Louis, höfuðborgar Máritíus á Indlandshafi. Þegar hann var um það bil 10 ára gamall kynntist hann íslenskum strák sem bjó með fjölskyldu sinni í næsta húsi.

Hér má sjá Steve 9 ára gamlan, um það leyti …
Hér má sjá Steve 9 ára gamlan, um það leyti sem hann kynntist Ragnari. Ljósmynd/Aðsend

Æskuvinurinn, sem líklegra heitir Ragnar, á eina eldri systur og tvær yngri og telur Steve að yngsta systirin heiti Þóra. Fjölskyldufaðirinn var afar lunkinn badmintonspilari og kenndi Steve að spila sem hann hafði gaman af og gerir enn í dag.

Steve flutti til Englands í byrjun 8. áratugarins og er ekki viss hvort fjölskyldan hafi enn verið búsett á Máritíus um það leyti sem hann flutti.

Ragnar er líklega um sextugt í dag og þó svo að mörg ár séu liðin segir Jean að Steve hafi aldrei gleymt íslenska vini sínum og að það yrði gaman að komast í samband við hann aftur.

Ef lesendur hafa einhverjar upplýsingar sem gætu komið Jean að gagni má gjarnan hafa samband við blaðamann eða senda póst á netfrett@mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert