„Samantekin ráð“ gegn Alþýðufylkingunni

Þorvaldur Þorvaldsson, formaður Alþýðufylkingarinnar, greiddi atkvæði í ráðhúsinu.
Þorvaldur Þorvaldsson, formaður Alþýðufylkingarinnar, greiddi atkvæði í ráðhúsinu. mbl.is/Hari

Við fengum fullt af nýjum félögum og erum ánægð með glæsilegan málflutning,“ segir Þorvaldur Þorvaldsson, formaður Alþýðufylkingarinnar. 375 kusu flokkinn í alþingiskosningunum en Þorvaldur segir samt margt jákvætt eftir kosningarnar.

Við erum að byggja upp hreyfingu og það fer eftir ýmsu hvernig atkvæðatölurnar skiptast. Það er greinilegt að það eru ekki margir sem trúðu á að við næðum inn manni og settu atkvæði sitt á næstbesta kost,“ segir Þorvaldur.

Alþýðufylkingin hefur boðið fram í síðustu þrennum þingkosningum en aldrei verið nálægt því að koma manni inn á þing. Þorvaldur segir fylkinguna byggja upp og markmiðið sé ekki að komast auðveldlega inn á Alþingi.

Leggur ekki árar í bát

Við erum að byggja upp hreyfingu með framtíðarmarkmið um verulega breytingu á samfélaginu. Þær hugmyndir fá trú hjá almenningi og við reynum frekar að móta hugmyndir heldur en að elta uppi hugmyndir sem eru ráðandi.

Þorvaldur ætlar ekki að leggja árar í bát þrátt fyrir niðurstöðu síðustu þrennra kosninga og telur að ef aðstæður hefðu verið aðrar í þjóðfélaginu hefðu fleiri kosið Alþýðufylkinguna.

Ég held að það hafi verið ákveðin stemning í þjóðfélaginu, einvígisstemning, milli VG og Sjálfstæðisflokksins. Það hafi dregið til VG það fólk sem var tvístígandi milli okkar og þeirra. Ég heyrði margfalt fleiri segja núna heldur en áður að ef við mældumst með yfir 3 eða 4% þá myndi það kjósa okkur,“ segir Þorvaldur en hann telur að auki að ýmsir hafi vísvitandi reynt að útiloka fylkinguna frá umræðum í aðdraganda kosninganna:

„Það var meira gert til að reyna að útiloka okkur en áður,“ segir Þorvaldur og tekur dæmi af því að Alþýðufylkingin hafi ekki verið boðuð á lokaumræður leiðtoga kvöldið fyrir kosningar. „Við teljum það ólöglegt,“ segir Þorvaldur og bætir við að félagasamtök hafi haldið fundi án þeirra fulltrúa.

Þetta ber ýmis merki þess að það hafi verið samantekin ráð.

Eins og Jón Indíafari

Gælunafn Þorvalds, Albaníu-Valdi, fór nokkuð hátt í umræðu í aðdraganda kosninganna og Þorvaldur hlær þegar hann er spurður um hver sagan á bak við nafngiftina er. 

„Ég fór fyrir tæpum 40 árum til Albaníu og hef farið svona fimm sinnum. Ég var formaður í menningartengslum Albaníu og Íslands um skamma stund og ég lít á þessa nafngift svona svipaða og hjá Jóni Indíafara,“ segir Þorvaldur en Jón fór í ævintýraför til Indlands á 17. öld.

Það þótti svolítið sérstakt að fara til Albaníu árið 1978, kannski svipað og að fara til Indlands á tímum Jóns.

Einhverjir gárungar skutu því að á Twitter að viðurnefnið hefði komið til vegna þess að Þorvaldur væri mikill stuðningsmaður Albaníu í Eurovision. Þorvaldur hlær þegar blaðamaður ber þetta undir hann.

„Það er algjör misskilningur. Lengi framan af tóku þeir ekki þátt í Eurovision og gerðu það ekki fyrr en á eftir okkur. Ég kýs yfirleitt ekki í Eurovision og sú kenning stenst ekki.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert