„Ég fékk í raun og veru áfall“

Tónlistarmaðurinn Bubbi Morthens.
Tónlistarmaðurinn Bubbi Morthens. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Ég fékk skilaboð frá konum í vor um að það væri einhver að misnota nafnið mitt á Instagram,“ segir tónlistarmaðurinn Bubbi Morthens. Á samskiptamiðlinum Instagram er reikningur undir nafninu MorthensBubbi sem er falskur.

Sá eða þeir sem standa á bak við reikninginn hafa stolið myndum af Bubba og allri fjölskyldu hans. Á forsíðumyndinni er mynd af Bubba í gulri úlpu þar sem hann heldur á stærðarinnar laxi. Fjölmörg skilaboð af kynferðislegum toga hafa verið send konum í hans nafni. 

Vaknaður af svefninum

„Ég var að lesa í dag um Dustin Hoffman og kynferðislega áreitni sem hann er sakaður um og þá fór ég allt í einu að hugsa; vá hvað gerist ef einhver kona myndi stíga fram og lýsa því í fjölmiðlum að ég hefði verið að áreita hana kynferðislega í skilaboðum. Ég ætti ekki breik í samfélagmiðlum eins og Ísland er. Nafnið Bubbi yrði dáið. Ég fékk í raun og veru áfall,“ segir Bubbi. Hann viðurkennir að fram að þessu hafi hann ögn sofið á verðinum. 

Hann tekur fram að hann sé þakklátur fyrir það að fram að þessu hafi sem betur fer „vel innréttaðar“ og „gerðarlegar konur og stúlkur“ bent honum á að einhver væri að senda þeim skilaboð í hans nafni. Þeim þótti þetta uppátæki skrýtið og kom ekki alveg heim og saman við þann Bubba sem þær þekkja.  

Ein kvennanna benti Bubba á að skilaboðin væru ekki á góðri íslensku. Sá sem stendur á bak við síðuna þarf að minnsta kosti að vita hver Bubbi er til að geta nýtt sér persónuna til að komast í tæri við kvenmenn. 

Bubbi hefur einu sinni náð að láta loka síðunni með hjálp góðra vina. Hins vegar var síðan opnuð strax aftur. Hann hefur sent Instagram beiðni um að reikningnum verði lokað en án árangurs. 

Lögreglan vanbúin að takast á við tölvuglæpi hér 

„Nei. Þeir segja sem til þekkja að það er brandari að leita til lögreglunnar með svona mál,“ segir Bubbi spurður hvort hann sé búinn að leita til lögreglunnar. Hann tekur fram að hann sé ekki lasta lögregluna heldur sé hún vanbúin til að takast á við tölvuglæpi á Íslandi. „Þetta er ný tegund af glæp þegar samfélagssjálfinu er stolið og ný tegund af ofbeldi. Ef einhverjum er illa við þig er hægt að fara þessa leið. Þetta er skuggahlið samfélagsmiðlanna,“ segir Bubbi og tekur fram að við verðum að skoða þessi mál af fullri alvöru. 

Hins vegar hyggst hann leita til lögreglunnar á næstunni og leggja fram ákæru, formsins vegna.  

Bubbi er mikill veiðimaður og eru myndir á falsaða Instagram …
Bubbi er mikill veiðimaður og eru myndir á falsaða Instagram reikningi af honum við þá iðju. Ljósmynd/Hermóður Hilmarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert