Tilkynnt um 277 kynferðisbrot árið 2016

Árið 2016 bárust um það bil tíu prósent fleiri tilkynningar …
Árið 2016 bárust um það bil tíu prósent fleiri tilkynningar um kynferðisbrot en að meðaltali árin 2009 til 2015. Myndin er úr safni. mbl.is/Eggert

Árið 2016 voru 277 kynferðisbrot tilkynnt lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, eða að meðaltali 12 tilkynningar á hverja 10.000 íbúa. Þetta er svipaður fjöldi og barst áður. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu lögreglunnar um afbrot á höfuðborgarsvæðinu árið 2016.

Þar segir ennfremur, að langflestar tilkynningar hafi borist um brot sem áttu sér stað í miðborg Reykjavíkur, eða um 49 tilkynningar á hverja 10.000 íbúa með skráða búsetu þar.

Næst flestar tilkynningar bárust um brot sem áttu sér stað í Laugardal, eða um 20 á hverja 10.000 íbúa þar.

Þá segir, að ef miiðborgin sé ekki tekin með í meðaltalinu þá hafi níu tilkynningar borist á hverja 10.000 íbúa á höfuðborgarsvæðinu.

Viss stígandi í fjölda tilkynntra kynferðisbrota frá 2005

Ennfremur segir í skýrslunni, að viss stígandi hafi verið í fjölda tilkynntra kynferðisbrota allt frá árinu 2005, en árið 2016 bárustu lögreglu um 100 fleiri tilkynningar en árið 2009. Árið 2013 skar sig sérstaklega úr, en það ár bárust 416 tilkynningar um kynferðisbrot.

Árið 2016 bárust um það bil tíu prósent fleiri tilkynningar um kynferðisbrot en að meðaltali árin 2009 til 2015.

Langflestar tilkynningar bárust um brot sem áttu sér stað í …
Langflestar tilkynningar bárust um brot sem áttu sér stað í miðborg Reykajvíkur, eða um 49 tilkynningar á hverja 10.000 íbúa með skráða búsetu þar. mbl.is/Ófeigur

Álíka fjöldi tilkynninga barst lögreglunni árið 2016 líkt og árið 2015.

Tilkynntum nauðgunum árið 2016 fækkaði um tvær frá árinu á undan. Tilkynningarnar voru þó fleiri en þær voru árin 2014 og 2013, að því er segir í skýrslunni.

Fjögur vændismál í skoðun hjá lögreglu

Skráðum kynferðisbrotum sem eru flokkuð undir annað fjölgaði mest á milli ára. Þarna undir eru t.d. blygðunarsemisbrot og kynferðisleg áreitni.

Árið 2016 voru fjögur vændismál í rannsókn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Er þetta svipaður fjöldi og árið áður, en töluvert færri brot en árið 2013, þegar tæplega 100 mál voru skráð.

Fjöldi vændismála er háður frumkvæði lögreglunnar hverju sinni og ákvarðast fjöldinn því að miklu leyti af því hve miklum tíma lögregla getur varið í málaflokkinn.

Tilkynningum um kynferðisbrot gegn börnum fjölgaði um tvær á milli ára. Fjöldi tilkynninga árið 2016 er þó töluvert lægri en árin 2013 og 2014.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert