„Erfitt og sorglegt“

Eva Björk Valdimarsdóttir.
Eva Björk Valdimarsdóttir. Ljósmynd/Aðsend

Eva Björk Valdimarsdóttir segir að mistök hafi valdið því að starf hennar sem dómkirkjuprestur var afturkallað.

Á facebooksíðu sinni segir Eva Björk að mistökin hafi falist í því að kjörnefndin sem kaus hana í embættið hafi átt að vera kosin á sérstökum safnaðarfundi.

„Svo miklir annmarkar munu hafa verið á kosningu kjörnefndar að hægt var að efast um réttmæti skipunar minnar í embætti prests í Dómkirkjunni. Það er auðvitað erfitt og sorglegt að svona hafi farið. Það er von mín að vinnubrögð verði vandaðri í framtíðinni,“ segir Eva Björk.

Hún bætir við að boðað verði til safnaðarfundar þar sem fólk geti boðið sig fram til starfa í kjörnefndinni eða kosið sína fulltrúa til þeirra starfa. Í kjölfarið verði embættið auglýst að nýju.

„Ég aðhyllist sjálf það sjónarmið að fólkið í sókninni eigi að geta haft áhrif á störf síns safnaðar og á val presta. Það er gott að standa vörð um það,“ segir hún.

„Ég taldi ekki vænlegt að setjast í embætti undir þessum kringumstæðum. Ég vil þjóna kirkjunni í kærleika og sátt, á þeim vettvangi sem Guð leiðir mig. Ég er spennt fyrir því að takast á við ný verkefni í Reykjavíkurprófastsdæmi vestra og vinna með öllu því frábæra fólki sem þar er.“

Hún þakkar jafnframt fyrir stuðninginn, hvatninguna og góðu ráðin sem hún hafi fengið að undanförnu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert