Starfsmenn þriggja fjölmiðla boðaðir til skýrslutöku

Starfsmenn þriggja fjölmiðla hafa verið boðaðir til skýrslutöku hjá embætti Héraðssaksóknara vegna rannsóknar á gagnaleka úr Glitni. Um er að ræða alls tólf starfsmenn hjá Ríkisútvarpinu, Stundinni og 365 miðlum að því er Rúv greinir frá.

Embættið rannsakar nú gagnaleka úr Glitni á grundvelli tveggja kæra sem Fjármálaeftirlitið hefur lagt fram en að því er fram kemur í frétt Rúv um málið segist héraðssaksóknari ekki geta tjáð sig um rannsóknina að öðru leyti en því að hún standi yfir. Samkvæmt upplýsingum fréttastofu Rúv hafa einhverjir starfsmannanna þegar gefið skýrslu en aðrir hafa verið boðaðir til skýrslutöku á næstunni.

Ekki náðist í Ólaf Þór Hauksson héraðssaksóknara við vinnslu fréttarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert