Trúðurinn er ekkert fífl

Benedikt Karl Gröndal hefur oft brugðið sér í hlutverktrúðsins í …
Benedikt Karl Gröndal hefur oft brugðið sér í hlutverktrúðsins í einkasamkvæmum, skemmtunum og leiksýningu

Leikfélag Akureyrar stendur fyrir trúðboði um aðra helgi og býður borgurunum að taka þátt í byrjendanámskeiði í trúðatækni. Ekki til þess að þeir geti með rauðu nefi og í allt of stórum skóm gert lukku í barnaafmælum og þess háttar, heldur til að hjálpa þeim að fæða sinn eigin trúð. Jón Páll Eyjólfsson, leikhússtjóri, og Benedikt Karl Gröndal, leikari og leiðbeinandi, hafa fætt sinn trúðinn hvor, þá Dóra og Pétur.

Undanfarið hefur verið töluverð vakning í því listformi sem trúðasýningar eru. Trúðurinn er góð leið til að nálgast kærleika og einlægni í öllum mannlegum samskiptum. Hann er alltaf að fæðast, alltaf í núinu, talar bara um það sem hann sér og er aldrei að þykjast. Trúðurinn segir ævinlega sannleikann. Hann er sannleikurinn,“ segir Jón Páll Eyjólfsson, leikhússtjóri Leikfélags Akureyrar. „Trúðurinn er ekki persóna sem maður býr til. Hann er mjög sjálfstæður og segir oft það sem við vissum en vitum ekki að við vissum,“ bætir hann við – til einföldunar.

Trúðafræðin er ekkert grín, heldur heilmikil og háalvarleg heimspeki, sem LA ætlar að gefa borgurum Akureyrar innsýn í um aðra helgi á námskeiðinu Trúðboð. Að sögn Jóns Páls kemur hinn dæmigerði sirkustrúður nákvæmlega ekkert við sögu né heldur hvers kyns trúðs- eða fíflalæti. Enda trúðarnir sem leysast úr læðingi og fjallað verður um hreint engin fífl. Það eina sem minnir kannski á sirkustrúðinn er rauða nefið sem leiðbeinandinn og leikarinn Benedikt Karl Gröndal setur upp, og síðar þátttakendur þegar þeir fæða sinn trúð. Eins og er markmiðið að allir geri.

Trúðanámskeiðið er hluti af Borgarasviði LA, verkefni sem sett var á laggirnar í hittifyrra til þess að gefa borgurunum á Akureyri tækifæri til að upplifa leikhúsið sem rými þar sem fólk hittist, hefur samskipti og tengist í skapandi starfi, þvert á aldur, kyn og félagslegan bakgrunn.

Trúðatækni í leik og starfi

„Á námskeiðinu verður farið í grunnreglur trúðsins og þátttakendum kennt að þróa og vinna með trúðinn í gegnum spuna og leiki,“ upplýsir Jón Páll. Og Benedikt Karl leggur áherslu á að trúðatæknin nýtist bæði í leik og starfi. „Ekki bara leikurinn sem slíkur því tæknin gagnast öllum sem starfa með öðrum, til dæmis í kennslu og umönnunarstörfum, og einnig þeim sem vilja æfa sig að koma fram og efla sjálfstraustið,“ segir hann.

Trúðatæknin byggist á ákveðnum reglum, sem hljóma kannski einfaldar en getur verið þrautin þyngri að fara eftir. Auk þess sem Jón Páll sagði um kærleikann, sannleikann og núið, nefnir Benedikt Karl m.a. að maður eigi alltaf að horfa í augu þess sem talað er við og bíða í þrjár sekúndur áður en maður svarar viðmælanda sínum.

Jón Páll Eyjólfsson hefur líka nokkrum sinnum staðið í sporum …
Jón Páll Eyjólfsson hefur líka nokkrum sinnum staðið í sporum trúðsins um dagana. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

„Mér finnst mannbætandi að fara eftir þessum reglum í daglegum samskiptum og horfa til dæmis ekki stöðugt á símann minn eða eitthvað annað þegar ég tala við aðra manneskju. Frá leikrænu sjónarhorni snýst trúðatæknin gríðarlega mikið um nákvæmni. Trúðurinn er alltaf í augnablikinu með áhorfendum eða þeim sem hann talar við. Augnablikið er þeirra, allt sem gerist á því augnabliki er fallegt, satt og 100% frá hjartanu.“

Jón Páll og Benedikt Karl voru báðir lærisveinar argentíska trúðameistarans Rafael Bianciotto, sem um nokkurt skeið hefur haldið trúðanámskeið í Borgarleikhúsinu og víðar. Þar þróaði Benedikt Karl raunar sinn trúð, hann Pétur, sem hann fæddi þegar hann var í námi í The Commedia School í Kaupmannahöfn.

Að fæða trúð

Síðan hefur Benedikt Karl oft brugðið sér í hlutverk trúðsins í einkasamkvæmum, á skemmtunum og leiksýningum, t.d. trúðasýningunni Helgi magri, sem LA setti á fjalirnar undir listrænni stjórn Jóns Páls, sem einnig hefur alloft staðið í sporum trúðsins um dagana.

Dóri, trúðurinn hans, fæddist fyrir nokkrum árum og hefur æ síðan hjálpa honum að takast á við lífið og þær hindranir eða áföll sem að hafa steðjað. „Dóri einfaldar hlutina, hann segir að fyrir hvert vandamál sé lausn og fyrir hverja lausn sé vandamál. Engin lausn, ekkert vandamál,“ segir Jón Páll vera dæmi um hvernig Dóri nálgast ýmis viðfangsefni.

Hann kveðst engu hafa ráðið um nafn trúðsins. Á trúðanámskeiði hjá fyrrnefndum Rafael hafi hann verið með ákaflega fallegt nafn í huga fyrir sinn trúð. „Síðan var farið í ákveðnar æfingar og allt í einu einfaldlega fæddist Dóri án þess að ég hefði nokkuð um nafnið að segja,“ segir Jón Páll.

Spurður hver sé munurinn á Jóni Páli og Dóra kveðst hann ekki þekkja Dóra nægilega vel til að geta svarað afdráttarlaust. „Trúðurinn er ólíkindatól og þess vegna kunnum við á stundum ekkert sérstaklega vel við hann. Kannski af því hann segir sannleikann, sem hentar ekki alltaf. Eins og ég er Dóri mikil tilfinningavera, hann má ekkert aumt sjá. Við erum miklir vinir og brynjum okkur hvor með öðrum í hversdagslífinu.“

Minnsta gríma í heimi

Leikhússtjórinn og leiðbeinandinn árétta að trúðafræðin snúist hvorki um fíflið, hirðfíflið né sirkustrúðinn klaufalega, sem hafi það hlutverk helst að vera ofboðslega fyndinn. Þeir benda á að trúðurinn sem slíkur hafi á bak við sig ákveðna óra og sé því notaður í mismunandi tilgangi. „Hirðfíflið og trúðurinn eiga það sameiginlegt að segja alltaf satt. Hirðfíflið þóttist vera heimskt og fákunnandi og komst því upp með að segja sannleikann um kónginn og yfirstéttina,“ segir Jón Páll.

Nokkrir trúðar komu mikið við sögu í leiksýningunni Helgimagri sem …
Nokkrir trúðar komu mikið við sögu í leiksýningunni Helgimagri sem Leikfélag Akureyrar setti á svið í fyrra.

„Þátttakendur í Trúðboðinu þurfa ekki að óttast að þurfa að vera fyndnir og reyta af sér brandara Húmorinn felst í sannleikanum, einlægninni og heiðarleikanum,“ skýtur Benedikt Karl inn í og heldur áfram: „Hluti af námskeiðinu felst í að hver og einn fæðir sinn trúð í einni af mörgum æfingum sem við förum í gegnum. Ég sem leiðbeinandi spyr þátttakendur hvað trúðurinn, sem er að fæðast, heiti. Þeir fá engan tíma til að hugsa, segja bara það sem fyrst kemur upp í hugann og þar með er komið nafn á trúðinn.“

Og þá loksins setja þátttakendur upp rauða nefið, minnstu grímu í heimi, eða leifar af grímu eins og Jón Páll kallar það. „Auðvitað notum við nefið. Við kennum ákveðna grímutækni á námskeiðinu, bæði í að setja upp rauða nefið og umgangast það,“ segir hann. „Rauða nefið tekur athyglina á annan stað og afhjúpar hinn innri mann,“ útskýrir Benedikt Karl.

Báðir samsinna því að trúðafræði séu býsna flókin fræði sem og spekin að baki rauða nefinu. „Trúðboðinu er einungis ætlað að gefa þeim sem eru forvitnir um trúðatæknina tækifæri til að prófa og jafnframt að gera tilraun til að finna trúðinn í sér. Það er ekkert flóknara,“ segja þeir.

Námskeiðið Trúðboð er laugardaginn 11. nóvember kl. 13 - 18 og laugardaginn 12. nóvember kl. 11 - 16 í Samkomuhúsinu. Námskeiðið er ókeypis og ætlað 18 ára og eldri. Skráning á vefsíðu LA, www.mak.is.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert