Ekki hægt að athafna sig á vellinum

Flug liggur niðri á Keflavíkurflugvelli eins og er.
Flug liggur niðri á Keflavíkurflugvelli eins og er. Isavia

Að sögn talsmanns Icelandair er ekki heimilt að nota rana og slíkt á Keflavíkurflugvelli því ekki sé hægt að athafna sig vegna veðurs.

Icelandair hefur aflýst mörgum flugferðum seinnipart dags, en áætlað er að vélarnar sem fóru utan til Evrópu í morgun snúi aftur í fyrramálið.

Ferðum WOW air nú síðdegis hefur verið seinkað þar til veður gengur niður. Að sögn Svanhvítar Friðriksdóttur, upplýsingafulltrúa flugfélagsins, skall óveðrið á fyrr en var talið. Áður hafði verið greint frá því að félagið hefði flýtt brottförum í tilraun til að vera á undan veðrinu. Nú sé ekkert annað í stöðunni en að bíða eftir að lægi.

Ekki náðist í talsmann Isavia við vinnslu fréttarinnar.

Öllu innanlandsflugi það sem eftir er dags hefur auk þess verið aflýst.

Uppfært kl 16:00: Áður var greint frá því að flugi WOW air hefði verið aflýst.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert