Hafa sinnt um 70 verkefnum frá hádegi

Rúmlega 100 björgunarsveitamenn eru að störfum víða um höfuðborgarsvæðið vegna …
Rúmlega 100 björgunarsveitamenn eru að störfum víða um höfuðborgarsvæðið vegna veðursins. mbl.is/Kristinn Magnússon

Aðgerðastjórn hefur borist alls um 70 tilkynningar frá því um hádegi í dag vegna óveðursins sem nú gengur yfir. Aðgerðastjórnin á höfuðborgarsvæðinu var virkjuð fyrr í dag vegna veðurofsans en alls eru rúmlega 100 manns frá björgunarsveitunum að störfum víða um höfuðborgina auk hópa frá slökkviliðinu og lögreglunni.

„Okkur er alveg haldið við efnið, það er ekki hægt að segja annað,“ segir Ásgeir Þór Ásgeirsson, yfirlögregluþjónn og aðgerðastjóri, í samtali við mbl.is. Flest verkefnanna tengjast foki lausamuna og tjóni á byggingarsvæðum að sögn Ásgeirs.

„Það virðist bara vera sem menn hafi ekki tekið nægilegt mark á þeim viðvörunum sem voru gefnar fyrir helgina og á mjög mörgum byggingarsvæðum er bara mjög illa gengið frá lausum munum. Vinnupallar eru að fjúka, alls konar lausamunir sem eru á byggingarsvæðunum eru að fjúka,“ segir Ásgeir. 

Sloppið við að elta trampólín og garðhúsgögn

Að svo stöddu hefur ekki verið tilkynnt um slys á fólki en fjúkandi lausamunir geta þó vissulega skapað hættu. Að sögn Ásgeirs hefði mátt koma í veg fyrir eitthvert tjón hefði frágangur verið með fullnægjandi hætti.

mbl.is/Kristinn Magnússon

„Við höfum verið að beina því að þeim sem eru ábyrgir fyrir byggingarsvæðum í borginni að þeir fari og taki eftirlit á sínum svæðum og sjái hvort allt sé þar með kyrrum kjörum og bæti úr ef svo er ekki,“ segir Ásgeir. Aftur á móti segir hann ánægjulegt að svo virðist sem almenningur hafi brugðist vel við viðvörunum vegna veðursins.

„Við erum ekki að elta mikið af garðhúsgögnum eða trampólínum sem er nú svolítil hefð fyrir í fyrstu haustlægðinni. Það hefur ekki borið mikið á því en byggingarstjórarnir mættu taka aðeins til hendinni á sínum svæðum,“ segir Ásgeir að lokum. Aðgerðastjórnin verður að störfum allt þar til veðrið er gengið yfir og öllum verkefnum lokið.

Uppfært kl. 19:00

Að sögn Jónasar Guðmundssonar hjá Slysavarnarfélaginu Landsbjörg höfðu björgunarsveitir nú klukkan sjö í kvöld sinnt yfir 100 útköllum vegna óveðursins í dag.

Stillasar að falla af efstu hæð í Lindahverfi í Kópavogi. …
Stillasar að falla af efstu hæð í Lindahverfi í Kópavogi. Skapast getur allmikil hætta við aðstæður sem þessar. Ljósmynd/aðsend
Ljósmynd/aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert