„Hárrétt lögfræðileg niðurstaða“

Egill Einarsson og Vilhjálmur H. Vilhjálmsson lögmaður hans. Mannréttindadómstóll Evrópu …
Egill Einarsson og Vilhjálmur H. Vilhjálmsson lögmaður hans. Mannréttindadómstóll Evrópu úrskurðaði að íslenska ríkið skuli greiða Agli skaðabæt­ur vegna dóma Hæsta­rétt­ar og héraðsdóms. Þar var blogg­ari sýknaður af skaðabóta­kröfu vegna mynd­birt­ing­ar og um­mæli sem hann ritaði um Egil á In­sta­gram. mbl.is/ Rósa Braga

„Ég tel að þetta sé hárrétt lögfræðileg niðurstaða,“ segir Vil­hjálm­ur H. Vil­hjálms­son, lögmaður Eg­ils Einarssonar. Hann kveðst hafa rætt við skjólstæðing sinn í morgun og að Egill hafi verið mjög sáttur við niðurstöðuna.

Greint var frá því í morgun að Mannréttindadómstóll Evrópu hafi úrskurðað að íslenska ríkið þurfi að greiða Agli Ein­ars­syni skaðabæt­ur vegna dóma Hæsta­rétt­ar og héraðsdóms. Þar var blogg­ari sýknaður af skaðabóta­kröfu vegna mynd­birt­ing­ar og um­mæli sem hann ritaði um Egil á In­sta­gram. Segir í úrskurði Mann­rétt­inda­dóm­stólsins að þar hafi verið brotið á stjórn­ar­skrár­vörðum rétti Eg­ils til friðhelgi einka­lífs.

Um er að ræða um­mæli sem rituð voru um Egil á In­st­astram af Inga Kristjáni Sig­ur­mars­syni árið 2012. Áður hafði sak­sókn­ari fallið frá því að ákæra Egil fyr­ir nauðgun og önn­ur kyn­ferðis­brot.

Breytir ekki réttinum til friðhelgi einkalífs

 „Dómur Mannréttindadómstólsins er vel rökstuddur og tekur algjörlega á kjarna þessa máls sem er sá, að jafnvel þó að menn eigi í orðaskaki við náungann og viðkomandi sé þjóðþekktur, þá breytir það ekki því að viðkomandi á rétt til friðhelgi einkalífs eins og aðrir menn,“ segir Vilhjálmur.

Hæstirétt­ur staðfesti sýknu­dóm héraðsdóms árið 2014 í meiðyrðamáli sem Eg­ill Ein­ars­son höfðaði á hend­ur Inga Kristjáni Sig­ur­mars­syni fyr­ir ærumeiðandi aðdrótt­un. Hæstirétt­ur klofnaði í mál­inu, en meiri­hlut­inn sagði að tján­ing Inga hafi verið inn­an marka þess frels­is sem hon­um er tryggt í stjórn­ar­skrá. Þetta fellst Mann­rétt­inda­dóm­stóll­inn hins veg­ar ekki á.

Eg­ill höfðaði meiðyrðamál á hend­ur Inga sem teiknaði ókvæðisorð á mynd af Agli og birti á In­sta­gram. Í stefn­unni var þess kraf­ist að Ingi yrði dæmd­ur til refs­ing­ar fyr­ir ærumeiðandi aðdrótt­an­ir með því að hafa breytt ljós­mynd af Agli þannig að hann teiknaði kross á hvolfi á enni hans, skrifaði „aum­ingi“ þvert yfir and­lit stefn­anda og „fuck you rap­ist bast­ard“ sem mynda­texta og birti ljós­mynd­ina þannig breytta á In­sta­gram, 22. nóv­em­ber 2012.

„Menn geta ekki sagt hvað sem er í slíkri umræðu, jafnvel þó hún sé hatrömm, og þeir geta alls ekki ásakað viðkomandi um alvarlegan glæp eins og þessi ungi maður gerði,“ segir Vilhjálmur. „Staðan er sú að hann fór með algjörlega staðlausa stafi, vitandi vits að sakamálið sem var til rannsóknar hafði verið fellt niður. Hann ákvað þó engu að síður að viðhafa ummælin og láta eins og viðkomandi hefði verið sakfelldur og dæmdur fyrir háttsemina.“

Sératkvæðin draga ekki úr vægi dómsins

Tveir dómarar Mannréttindadómstólsins skiluðu sératkvæði. Segir annar þeirra hinn ákærða vera að bregðast við viðtalinu í tímaritinu sem myndin af Agli var fram á, en hinn sagði umdeild og ögrandi ummæli Egils, sem og þá staðreynd að hann sé þekktur einstaklingur breyta mörkunum.

Vilhjálmur kveðst ekki telja sératkvæðin draga úr vægi dómsins. „Ég held að þetta sé kórrétt niðurstaða. Rökstuðningur meirihlutans er mjög sannfærandi svo ekki sé fastar að orði kveðið og í samræmi við málflutning okkar í þessu máli frá fyrstu stundu,“ segir hann. „Ég tel því einfaldlega að þetta sé hárrétt niðurstaða.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert