Reksturinn verði jákvæður upp á 3,4 milljarða

mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Frumvarp að fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar fyrir árið 2018 og fimm ára áætlun 2018-2022 var lagt fram í borgarstjórn í dag. Fram kemur í fréttatilkynningu að áætlað sé að rekstrarniðurstaða borgarsjóðs verði jákvæð um 3,4 milljarða á næsta ári. Jafnvægi sé í rekstri borgarinnar, bæði hjá fyrirtækjum hennar og í rekstri A-hluta.

Fram kemur að sótt verði verulega fram í skólamálum árið 2018 og ráðist í fjárfestingar upp á 18 milljarða króna með sérstaka áherslu á götur, stíga og íþróttamannvirki. Þá verði áfram sótt fram í húsnæðismálum en alls fari 69 milljarðar króna í húsnæðismál næstu fimm árin. Enn fremur verði fasteignagjöld á íbúðarhúsnæði lækkuð úr 0,2% í 0,18% auk sérstaks afsláttar fyrir aldraða og öryrkja. 

Rekstrarniðurstaða fyrir samstæðu Reykjavíkurborgar árið 2018 er áætluð um 17,2 milljarðar. Góðan afgang megi einkum rekja til A-hluta, Orkuveitu Reykjavíkur og Félagsbústaða hf. vegna matsbreytinga fjárfestingaeigna félagsins. Einnig er gert ráð fyrir batnandi afkomu á áætlunartímabilinu 2018- 2022.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert