Sæll og glaður hundur í eingangrun

Jóhanna Þorbjörg Magnúsdóttir hundaþjálfari.
Jóhanna Þorbjörg Magnúsdóttir hundaþjálfari. Ljósmynd/Aðsend

Ný einangrunarstöð fyrir hunda og ketti verður tekin í notkun á bænum Selási í Holta- og Landsveit næsta vor. Húsið verður um 300 fermetrar að stærð og pláss fyrir 16 hunda og þrjá ketti. Þegar hundar og kettir eru fluttir inn til landsins þurfa þeir að vera 28 daga í einangrun samkvæmt lögum. Ein einangrunarstöð er á landinu og biðlistinn er langur eða allt að níu mánuðir.  

„Við bjóðum upp á að þjálfa hundana á meðan einangrun stendur yfir svo hundurinn bíði ekki bara í 28 daga. Hægt verður að kaupa misjafna þjálfunarpakka fyrir hundana sem tekur mið af aldri og tegund. Við verðum með hlaupabretti, hundafimitæki, þjálfunarrými og hvert dýr er með sérherbergi  og margt fleira. Markmiðið er að hundurinn verði sæll og glaður og líði helst betur hjá okkur en heima hjá sér,“ segir Jóhanna Þorbjörg Magnúsdóttir hundaþjálfari og eigandi einangrunarstöðvarinnar.

Öll tilskilin leyfi liggja fyrir og eru framkvæmdir þegar hafnar. Búið er að slá upp fyrir húsinu og eins og fyrr segir er stefnt að því að starfsemin hefjist á næsta ári.   

Strangar regulgerðir um innflutning

Reglugerðir um innflutning hunda og katta eru mjög strangar. Jóhanna bendir á að áður en hundar og kettir fá innflutningsleyfi eru þeir skoðaðir vel og þurfa að uppfylla ströng skilyrði, meðal annars að fá fjölmörg bóluefni, fara í mótefnamælingar fyrir alvarlegum sjúkdómum og einnig eru gerðar blóðprufur til að greina hvort dýrið beri mögulegt smit. 

Unnið er að því að byggja einangrunarstöð fyrir hunda og …
Unnið er að því að byggja einangrunarstöð fyrir hunda og ketti á Selási í Holta- og Landsveit. Ljósmynd/Aðsend

„Við viljum alls ekki að smitsjúkdómar berist hingað til landsins. Þessi einangrun er ákveðinn varnagli, ofan á annars gríðarlega strangar kröfur,“ segir Jóhanna og bendir á að það hafi aldrei komið upp alvarlegt smit hjá hundum og köttum í einangrunastöðvum á Íslandi.

Hún tekur fram að engar líkur eru á því að dýr í nágrenninu gætu smitast ef mögulegt smit kæmi upp. Í því samhengi vísar hún til allra tilskilinna leyfa sem starfsemin hefur fengið frá Matvælastofnun og Atvinnu- og nýsköpunarráðuneyti. 

Þjálfar fólk og þjálfar hunda

„Ég hef verið að þjálfa upp starfsfólk sem hefur verið í námi hjá mér í um ár,“ segir Jóhanna. Hún segir mikilvægt að efla atvinnulífið í sveitinni og gott að fá starfsemi sem þessa á landsbyggðina.    

Jóhanna er menntaður hundaþjálfari og stundaði nám í Austinn í Texas í Bandaríkjunum. Hún hefur alla tíð átt hunda og á í dag meðal annars hundinn  Morris sem er fullþjálfaður Björgunarhundur. Þau sinntu útköllum frá árinu 2008 en Morris er í dag kominn á „ellilífeyri“. 

Á vefsíðunni allirhundar.is er hægt að fylgjast með og líka hér á Facebook

Jóhanna Þorbjörg Magnúsdóttir á nokkra hunda.
Jóhanna Þorbjörg Magnúsdóttir á nokkra hunda. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert