Elíza heimsótti flóttamannabúðir

Elíza Reid forsetafrú heimsótti Zaatari-flóttamannabúðirnar í Jórdaníu.
Elíza Reid forsetafrú heimsótti Zaatari-flóttamannabúðirnar í Jórdaníu. UN Women

„Þetta eru konur sem áttu sér drauma, vonir og þrár eins og hver önnur kona á Íslandi. En þær eru í þessum aðstæðum og vita ekkert hvað framtíðin ber í skauti sér. Við viljum hjálpa þeim,“ segir Stella Samúelsdóttir, framkvæmdastýra UN Women á Íslandi.

Stella fór ásamt landsnefnd UN Women og þeim Elízu Reid forsetafrú og Evu Maríu Jónsdóttur, verndara UN Women á Íslandi, til Jórdaníu í september síðastliðnum. Þar kynntu þær sér griðastaði UN Women í Zaatari-flóttamannabúðunum en þar dveljast konur og stúlkur á flótta frá Sýrlandi. Nú er hafin neyðarsöfnun fyrir þessar konur. Landsmenn eru hvattir til að senda SMS-ið KONUR í númerið 1900 til að leggja sitt af mörkum.

Um 80 þúsund Sýrlendingar dvelja í Zaatari eftir að hafa flúið stríðsátök og ofbeldi í heimalandi sínu. Búðirnar eru þær næststærstu í heiminum og jafnframt eru þær fjórða fjölmennasta borg Jórdaníu. Konur og börn eru um 80% íbúa í Zaatari og eiga erfitt uppdráttar í búðunum. Á griðastöðunum eru konur öruggar, fá atvinnutækifæri, menntun og daggæslu fyrir börn sín.

„Konurnar í flóttamannabúðunum eru berskjaldaðar gagnvart ofbeldi og öðru. Griðastaðirnir veita þeim vernd, öryggi og atvinnu. Raddir þeirra heyrast mjög sjaldan en við viljum hlusta á raddir þeirra. Þær eru oft fyrirvinna fjölskyldu sinnar en flest störf í flóttamannabúðunum, 5.000 talsins, eru unnin af körlum. Á griðastöðunum fá þær tækifæri til að vinna,“ segir Stella.

Hafa upplifað hræðilega hluti

„Margar hverjar hafa upplifað hræðilega hluti, misst maka, fjölskyldur og börn, hluti sem enginn ætti að þurfa að upplifa. Þær búa í litlum gámum og þessir griðastaðir hjálpa þeim að komast út úr þunglyndi og einangrun, veita þeim trú og von fyrir framtíðina.

Það veit enginn hvað þær verða lengi þarna en á meðan þær komast á griðastaðina þurfa þær ekki að sitja og bíða. Við viljum gefa fleiri konum tækifæri á að fá atvinnu og þessa vernd. Öruggt skjól og tækifæri á nýju upphafi. Það eru hundruð kvenna á biðlista og sá peningur sem safnast mun renna til að fleiri konur geti notið þessa,“ segir hún.

Eliza Reid forsetafrú í flóttamannabúðum UN Women í Zaatari
Eliza Reid forsetafrú í flóttamannabúðum UN Women í Zaatari
Zaatari-flóttamannabúðirnar í Jórdaníu.
Zaatari-flóttamannabúðirnar í Jórdaníu. AFP
Sýrlenskar flóttakonur í Zaatari-búðunum.
Sýrlenskar flóttakonur í Zaatari-búðunum. AFP
Forseti UEFA, Aleksander Ceferin og franski knattspyrnumaðurinn Christian Karembeu heimsóttu …
Forseti UEFA, Aleksander Ceferin og franski knattspyrnumaðurinn Christian Karembeu heimsóttu Zaatari búðirnar í september. AFP
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert