Íslensk skrímsli flutt út

Skrímslið Áróra.
Skrímslið Áróra. Mynd / www.theskrimslis.com

Íslenska fyrirtækið Monstri ehf hefur handgert lítil ullarskrímsli frá árinu 2011 og hafa þau  fengið frábærar viðtökur hjá ferðamönnum. Svo frábærar að ferðamaður nokkur, sem rekur framleiðslufyrirtæki í Japan, hefur falast eftir samstarfi við fyrirtækið.

Dreifingarsamningur í Japan 

Allt er þetta farið að vinda upp á sig og verður vörulína fyrirtækisins með á einni stærstu barna-vörusýningu í Asíu, fyrst íslenskra fyrirtækja.

„Skrímslamamman“ Alma Björk Ástþórsdóttir sagði frá sögu fyrirtækisins í Magasíninu á K100 síðdegis. Hún segir eftirspurn eftir fleiri vörum um skrímslin góðu en Monstri ehf skrifaði undir dreifingarsamning í Japan fyrr á þessu ári. Í kjölfarið gáfu þau út bókina “The Skrimslis of Lavaland”. 

Nú hefur bókin verið gefin út á íslensku og mun fyrirtækið halda útgáfuteiti í Hafnarborg Hafnarfirði þann 11. nóvember n.k. og þar verður einnig sett upp skrímslasmiðja þar sem púsla má saman sínu eigin skrímsli.

Skrímslið Hellir.
Skrímslið Hellir. Mynd / www.theskrimslis.com

Græn framleiðsla

Afgangar og endurvinnsla efnis varð kveikjan að framleiðslu skrímslanna segir Alma í viðtalinu og lýsir hún því hvernig afgangar hlóðust upp frá framleiðslu á fatnaði hjá móður sinni sem rekur einnig fyrirtæki. Eitt hefur leitt af öðru og má hlusta á viðtalið við Ölmu Björk úr þættinum hér að neðan. 

Heimasíða fyrirtækisins er http://www.theskrimslis.com/

Hér má sjá viðtalið í heild.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert