Enn sjást röng viðbrögð við heilahristing

Hafrún Kristjánsdóttir, Ph.D. íþróttasálfræðingur.
Hafrún Kristjánsdóttir, Ph.D. íþróttasálfræðingur. mbl.is/Eggert

„Það er lítil þekking á heilahristingi og hver viðbrögð við honum ættu að vera. Það hefur stöðvað ferilinn hjá íþróttamönnum,“ segir Hafrún Kristjánsdóttir Ph.D íþróttafræðingur. Hún og María Jónsdóttir Ph.D. taugasálfræðingur héldu almennan fræðslufund um heilahristing í íþróttum, viðbrögð og mögulegar afleiðingar í Mjölni í dag.

Þær hafa haldið fyrirlestra víða um afleiðingar heilahristings í íþróttum og þeim þykir mikilvægt að fræða bæði leikmenn og þjálfara um áhrifin, ekki síst um afleiðingar ef fyrstu viðbrögð eru ekki rétt.     

Fyrstu viðbrögð við heilahristing í íþróttum fara alfarið eftir einkennum. Almennt er reglan sú að einstaklingurinn þarf algjöra hvíld í eina til tvær vikur. Sú hvíld á ekki eingöngu við um frí frá æfingum heldur einnig frí frá hugrænu áreiti eins og til dæmis vinnu og skóla en eins og fyrr segir fer það eftir hverju tilviki fyrir sig.

mbl.is/Eggert

Í allra fyrsta lagi megi karlar keppa aftur eftir 7 daga og konur eftir 10 daga. „Afleiðingar hjá konum virðast vera alvarlegri. Við vitum ekki nákvæmlega hvers vegna það er,“ segir Hafrún spurð út í muninn á kynjunum.

„Það eru enn dæmi um að leikmaður er settur aftur inn á eftir heilahristing. Það er algjörlega óásættanlegt. Á hverju ári sjáum við oft röng viðbrögð við heilahristing,“ segir Hafrún. Þetta eigi við um bæði skort á þekkingu leikmanna og þjálfara. Hún segir þetta slæmt sérstaklega í ljósi aukinnar fræðslu um áhrif heilahristings á heilsu fólks bæði til lengri og skemmri tíma.

Vilja aftur inn á völlinn

Í rannsóknum viðurkenna leikmenn að þeir fari aftur inn á völlinn og halda áfram iðkun þrátt fyrir að þeim hafi verið ráðlagt að gera það ekki. Rannsóknir á efstu deild kvenna og karla í fótbolta á Íslandi sýna að 42,6% sem höfðu fengið höfuðhögg sögðust hafa haldið áfram leik eða æfingu gegn ráðleggingum læknis, þjálfara eða sjúkraþjálfara. 37,3% sögðu að mikilvægi æfingar eða leiks hafi ráðið þeirri ákvörðun. „Ef þú tekur svona ákvörðun þá hefurðu ekki nægilega þekkingu á því hvaða afleiðingar þetta getur haft eða að þú ert ekki með réttu ráði,“ segir Hafrún.

Hafrún Kristjánsdóttir Ph.D. íþróttasálfræðingur.
Hafrún Kristjánsdóttir Ph.D. íþróttasálfræðingur. mbl.is/Eggert

Almenn vitundarvakning

Hafrún segir að undanfarið hafi orðið almenn vitundarvakning um áhrif heilahristings í íþróttum. Í því samhengi bendir hún á að henni þyki flott framtak hjá Mjölni að óska eftir þessum fræðslufyrirlestri því oft sé tilhneiging hjá þeim sem eru í bardagaíþróttum að hlusta ekki á hver möguleg áhrif af heilahristing eru á líf einstaklinga. „Mér finnst þeir sýna mikla ábyrgð,“ segir Hafrún.  

Fjölmargir íslenskir leikmenn í handbolta og fótbolta glíma við alvarlegar afleiðingar heilahristings. Í um 10 til 20% tilfella heilahristings geta þau verið alvarleg en í flestum tilfellum jafnar fólk sig eftir einhvern tíma. „Ef þetta fer illa eru lífsgæði verulega skert. Þau gætu varað í mánuð, nokkur ár eða jafnvel lengur,“ segir Hafrún.  

FIFA, Alþjóðaknattspyrnusambandið, er með nákvæmar og góðar leiðbeiningar um hvernig eigi að bregðast við heilahristing hjá knattspyrnumönnum t.d. hvenær og hver næstu skref eigi að vera. Þær leiðbeiningar eru til fyrirmyndar, að sögn Hafrúnar. KSÍ, Knattspyrnusamband Íslands, hefur einnig búið til leiðbeiningar um hvernig eigi að bregðast við heilahristing og einnig ÍSÍ, Íþróttasamband Íslands. Þetta er fræðsla sem er mikilvægt að halda á lofti, að sögn Hafrúnar. 

mbl.is/Eggert
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert