Andlát: Haukur Hjaltason

Haukur Hjaltason.
Haukur Hjaltason.

Haukur Hjaltason, forstjóri, athafnamaður og matreiðslumeistari, lést á gjörgæsludeild Landspítalans miðvikudaginn 8. nóvember síðastliðinn, 77 ára að aldri.

Haukur fæddist í Reykjavík 6. mars 1940 og ólst þar upp hjá foreldrum sínum, þeim Hjalta Jónssyni verksmiðjustjóra og Jóhönnu Gústu Baldvinsdóttur, húsfreyju og gistiheimilisstýru.

Haukur lærði matreiðslu á Hótel Sögu, stundaði nám við Hótel- og veitingaskóla Íslands, útskrifaðist sem matreiðslumaður 1964 og öðlaðist meistararéttindi 1967. Hann var yfirmatreiðslumaður á Hótel KEA á Akureyri og í Tjarnarbúð 1964-65, aðstoðaryfirmatreiðslumeistari á Hótel Loftleiðum 1965-66 en stofnaði og rak síðan eigin veitingastaði 1966-74, Sælkerann í Hafnarstræti, Óðal við Austurvöll og Nautið í Austurstræti 12a. Sælkerinn var einn fyrsti skyndibitastaður landsins.

Haukur hefur starfrækt innflutningsfyrirtæki frá 1969. Hann var meðeigandi veitingahúsa Asks 1979-82 og stjórnarformaður þeirra. Þá starfrækti hann tilraunabú í nautgriparækt 1982-86. Haukur sat í stjórn Hafskips 1979-83, var stjórnarformaður fjölskyldufyrirtækjanna Dreifingar ehf. frá 1969, Skúlagötu 30 ehf. frá 1981 og Kjötbankans ehf. frá 2005. Haukur sat í stjórn Junior Chamber í Reykjavík 1974-75 og var útnefndur senator Junior Chamber og forseti Senatsins 1986-87. Hann sat í stjórn knattspyrnudeildar KR 1978-82, í stjórn Heimdallar 1971-73 og í stjórn SUS 1973-75. Hann var virkur í starfi KR. m.a. skíðadeildar, og gegndi trúnaðarstörfum fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Hann hefur skrifað greinar í blöð og tímarit um efnahagsmál, stjórnmál og fagleg málefni.

Eftirlifandi eiginkona Hauks er Þórdís Jónsdóttir, fyrrv. flugfreyja og fjármálastjóri. Dóttir Hauks og Þórdísar er Charlotta María. Börn Hauks frá því áður eru María, Guðjón Heiðar, Svava og Kolbrún. Sonur Þórdísar og uppeldissonur Hauks er Jón Daði Ólafsson.

Útför Hauks fer fram frá Dómkirkjunni í Reykjavík fimmtudaginn 16. nóvember kl. 13.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert