Hagleiksmaður á skurðstofu

Sigurjón Gunnarsson hefur stundað tréskurð í meira en tvo áratugi …
Sigurjón Gunnarsson hefur stundað tréskurð í meira en tvo áratugi og er mikill áhugamaður um séríslenskt tréverk. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þótt Sigurjón Gunnarsson sé einstakur hagleiksmaður á tré og jafnframt margt annað til lista lagt kvaðst hann ekki geta lagað nef á manni þegar hann fékk fyrirspurn þess efnis á dögunum. Vinnan sem hann framkvæmir á Skurðstofu Sigurjóns í Hafnarfirði er enda af allt öðrum toga og snýst fyrst og fremst um tréskurð.

Allir eru velkomnir að ganga í bæinn og skoða og kaupa tréverkin sem þar eru í tugavís af öllum gerðum og stærðum. Að öðru leyti segist hann gera lítið af því að koma verkum sínum á framfæri.

Sigurjón hefur stundað tréskurð í yfir tuttugu ár, eða allt frá því hann tók öll námskeið sem í boði voru, sjö talsins, í Trélistaskóla Hannesar Flosasonar. Þá hefur hann setið í stjórn og um tíma verið formaður FÁT, Félags áhugamanna um tréskurð.

„Hannes heitinn var einn fárra lærðra tréskurðarmeistara á Íslandi, sem kenndu almenningi tréskurð með markvissum hætti. Slík menntun er ekki lengur til hér á landi nema að nafninu til, óvirk iðngrein, ef svo má segja, því enginn sækir lengur í hana,“ segir Sigurjón, sem nýverið gaf út í samstarfi við Iðnú upplýsinga- og fróðleiksbókina Tréskurður.

Hugur og hönd

Salt- og piparstaukar dulbúnir sem tóbakshorn.
Salt- og piparstaukar dulbúnir sem tóbakshorn. mbl.is/Kristinn Magnússon



„Íslenskt lesefni um tréskurð er af mjög skornum skammti. Ég hafði verið að taka saman og hripa niður ýmslegt héðan og þaðan mér til gagns og gamans þegar mér datt í hug að fóðleiksmolarnir gætu komið öðrum til góða, sem hefðu hug á að fást við tréskurð eða væru komnir eitthvað áleiðis,“ segir Sigurjón. Hann leggur áherslu á að bókin flokkist þó hvorki sem kennslubók né sjálfshjálparbók. „Verklega þætti tréskurðar er illmögulegt að útskýra með orðum, enda byggist tréskurður að stórum hluta á snertingu þar sem saman fara hugur og hönd. Til þess að geta nýtt sér bókina þarf fólk að hafa áður aflað sér grunnþekkingar í skurðlist og notið að einhverju marki leiðsagnar hjá kunnáttumanni. Skurðlistin verður ekki af einni bókinni lærð.“

Í bók sinni fer Sigurjón engu að síður býsna ítarlega ofan í saumana á hvaða verkfæri beri að nota, meðhöndlun þeirra, vinnuaðferðir og -aðstöðu, fyrstu skrefin og síðan skref fyrir skref. Auk fróðleiks um sögu og þróun tréskurðar, einkum á Íslandi, fjallar hann um mismunandi stíla og stefnur, myndbyggingu og alls konar hagnýt og oft tæknileg atriði. Ljósmyndir, teikningar og skýringarmyndir eftir höfundinn eru svo til þess fallnar að taka af allan vafa.

Litlir askar eru kallaðir nóar.
Litlir askar eru kallaðir nóar. mbl.is/Kristinn Magnússon


„Heilabrot verða mest við tréskurð þegar valið er viðfangsefni. Hvað á að skera í viðinn? Það þarf helst að liggja ljóst fyrir því að auðvitað verður að sníða fjölina fyrir það sem skera á,“ segir í Tréskurði,

Kennir eldri borgurum

Sjálfum finnst Sigurjóni skemmtilegast að skera út eftir eigin hugmyndum, þróa þær og vinna frá grunni. Helst nytjahluti. Hann hefur t.d. skorið út lampafætur, kaffipokastand með stuðlabergsmynstri, aska og er núna að þróa nóa, eins og litlir askar eru kallaðir, og sér þá fyrir sér sem ílát fyrir sykur eða annað matarkyns.

Kaffipokastandur með stuðlabergsmynstri.
Kaffipokastandur með stuðlabergsmynstri. mbl.is/Kristinn Magnússon


Sigurjón ráðleggur byrjendum samt að skera út eftir fyrirmyndum. „Í tréskurðarnámi er yfirleitt byrjað á að skera út einfaldan bakka og um leið kennt að beita verkfærunum og að skera út í viðinn eftir því hvernig liggur í honum.“

Allt þetta og fleira tengt tréskurði hefur Sigurjón annað slagið kennt á námskeiðum í allmörg ár. Í fyrra þegar hann komst í tölu eldri borgara og lét af störfum sem verslunarstjóri ÁTVR hóf hann að kenna jafnöldrum sínum og þaðan af eldri í félagsstarfi eldri borgara. Þess á milli sker hann út í tré í skurðstofunni sinni. Og er alsæll.

Haganlega útskorinn skór í smiðju Sigurjóns.
Haganlega útskorinn skór í smiðju Sigurjóns. mbl.is/Kristinn Magnússon


Af eftirlætis-tréskurðarverkum sínum nefnir hann gestabók og myndaramma. „Gestabókina unnum við faðir minn, Gunnar Ásgeir Hjaltason, gullsmiður og listmálari, í sameiningu. Hann teiknaði mynd af landslagi sem ég skar síðan eftir. Myndarammann vann ég hins vegar eftir öðrum, sem var alltaf á æskuheimili mínu, og ég hafði ekki hugmynd um fyrr en löngu síðar að var eftir ömmubróður minn, sem bjó lengst af í Boston.“

Askarnir féllu í stafi

Sigurjón segir að séreinkenni íslensks tréskurðar séu annars vegar askarnir; stafaílát með útskurði á lokinu, og hins vegar höfðaletrið, sem skorið var út í kistla og aðra trégripi. „Menn hafa lengi rifist um hvaðan höfðaletrið er upprunnið, en það virðist ekki hafa verið notað annars staðar en á Íslandi. Hér þróaðist það öldum saman og hver ritaði með sínum hætti. Bólu-Hjálmar átti til dæmis sína útgáfu sem prýðir mörg hans hagleiksverk. Áður fyrr skáru Íslendingar aðallega út nytjahluti úr rekavið, eða þar til upp úr aldamótunum 1900 að Ríkarður Jónsson, Stefán Eiríksson og fleiri, sem lært höfðu tréskurð í útlöndum, kynntu fagurfræðina og skrautið til sögunnar.“

Útflúr. Rammann skar Sigurjón út eftir öðrum sem var á …
Útflúr. Rammann skar Sigurjón út eftir öðrum sem var á æskuheimili hans. mbl.is/Kristinn Magnússon




Að sögn Sigurjóns eyðilögðust margir askar og ýmis tréskurður frá fyrri tíð vegna raka í húsakynnum með tilheyrandi fúasvepp. „Þegar fólk hætti að nota askana á hverjum degi, þornuðu þeir líka upp og féllu í stafi, eins og sagt var,“ segir hann og útskýrir að þessi gömlu matarílát hafi verið smíðuð úr stöfum líkt og tunnur.

Tréskurður sem iðngrein leið smám saman undir lok eftir miðja síðustu öld. Tískustraumar í hönnun húsgagna áttu þar stærstan þátt. „Aukinn innflutningur og ný efni kipptu fótunum undan húsgagnatréskurði á skömmum tíma. Eftir stóðu nokkrir einstaklingar sem höfðu atvinnu af tréskurði, aðallega við gerð tækifærisgjafa og hluta sem ferðamenn keyptu,“ segir Sigurjón, sem með bók sinni vonast til að glæða áhuga á tréskurði og um leið varðveita sögu íslensks handverks.

Tréskurður er 60 blaðsíðna gormabók í A4 broti. Hún fæst í bókabúð Iðnú og hjá höfundi. Netfang: silo@mmedia.is. Facebook: Skurðstofa Sigurjóns.

Á íslenskt handverk undir högg að sækja?

Peysufatakonur. Þær stóru geyma prjóna- og hekludót. Litla er skraut. …
Peysufatakonur. Þær stóru geyma prjóna- og hekludót. Litla er skraut. Höfundurinn Sigurjón Gunnarsson mbl.is/Kristinn Magnússon

„Íslendingar margir hverjir fyllast eldmóði og rísa upp til varnar þegar vegið er að náttúru landsins, tungumáli og sjálfstæði og er það vel. En öðru máli gegnir um íslenskt handverk. Svo er að sjá sem það eigi undir högg að sækja og séríslensk kunnátta handverksmanna sé að falla í gleymskunnar dá. Þótt byggðasöfn varðveiti muni sem bera vott um mikinn hagleik geta þau aldrei haldið við kunnáttu og færni í handverki,“ segir Sigurjón Gunnarsson m.a. í formála bókarinnar.
Skurðstofa Sigurjóns er í Hafnarfirði.
Skurðstofa Sigurjóns er í Hafnarfirði. mbl.is/Kristinn Magnússon
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert