Lærdómsríkt legóverkefni

Nemendur í 7. bekk Grunnskóla Hornafjarðar skipa þrjú lið í …
Nemendur í 7. bekk Grunnskóla Hornafjarðar skipa þrjú lið í First Lego League-keppninni í ár. Þau hafa undirbúið sig vel undir stjórn umsjónarkennara síns, Guðjóns Arnar Magnússonar.

Örplast í sjónum, flóðið sem skall á þjóðvegi 1 á dögunum og hvernig á að endurnýta vatn í þvottavélum eru rannsóknarverkefni sem nemendur í 7. bekk í Grunnskóla Hornafjarðar reyna að leysa í tækni- og hönnunarkeppninni First Lego League sem fer fram á morgun.

Hátt í 200 grunnskólanemendur í 21 liði frá 18 skólum eru skráðir til þátttöku í keppninni þar sem þau þurfa að spreyta sig á forritun, rannsóknarverkefnum, teymisvinnu og vélmennakappleik. Þema keppninnar í ár er vatn og þurfa þátttakendur að forrita vélmenni úr tölvustýrðu legói sem á að leysa þrautir tengdar vatninu.

Allur 7. bekkur er með

Grunnskóli Hornafjarðar hefur tekið þátt í First Lego League frá upphafi og sendir nú þrjú lið. „Við höfum haft það fyrir reglu í nokkur ár að senda alltaf einn árgang, allan 7. bekk. Það eru nú 24 krakkar, sem skiptast í þrjú lið,“ segir Þórgunnur Torfadóttir skólastjóri.

„Þetta er gríðarlega flott og lærdómsríkt verkefni. Nemendurnir læra forritun og þurfa að takast á við vandamál, læra að afla upplýsinga og koma með hugmyndir að lausnum, vinna saman sem hópur og halda utan um hvernig þau vinna. Þau þurfa síðan að útskýra vinnuna og keppa með vélmennum og á bak við þau liggur heilmikil forritunarvinna og þjálfun,“ segir Þórgunnur. Nemendunum finnist undantekningalaust öllum gaman að taka þátt í keppninni. „Við byrjum aðeins að kynna þeim þetta í 6. bekk, aukum tæknivinnu og forritun, svo þau koma aðeins undirbúin í 7. bekk. Við höfum líka notað legó mikið í nýsköpunarvinnuna hjá okkur sem við byrjum á í 4. bekk. Krökkunum finnst þetta skemmtilegt og læra helling á þessu.“

Stigvaxandi áhugi

Verðlaunabikararnir eru gerðir úr legói.
Verðlaunabikararnir eru gerðir úr legói.


Guðrún Bachmann, framkvæmdastjóri First Lego League-keppninnar á Íslandi, segir að síðan fyrsta keppnin var haldin árið 2005 hafi áhuginn farið stigvaxandi. „Það er mikill áhugi á að taka þátt í keppninni og við höfum velt því fyrir okkur, til þess að keppnin geti stækkað eins mikið og áhuginn bendir til, að skipta henni upp í landshlutakeppnir og vera síðan með úrslitakeppni að lokum. Ég held að það gefi miklu fleirum tækifæri til að vera með. Þetta er keppni sem reynir á svo marga ólíka þætti og liðin þurfa að vera samsett af nemendum með alls konar hæfni.“

First Lego League er alþjóðleg keppni og sigurliðinu gefst tækifæri til að taka þátt í keppninni First Lego League Scandinavia sem fer fram í Osló í desember.

Meirihluti liðanna sem keppa á morgun er úr landsbyggðarskólum. Spurð hverju það sæti segir Guðrún margt geta komið til. „Í minni einingum er kannski meiri sveigjanleiki til að gefa rými fyrir undirbúninginn og kennararnir meðvitaðri um að grípa öll tækifæri til að víkka út starfið. Í stærri samfélögum er kannski meira framboð af öllu mögulegu. Við sjáum líka að þeir skólar sem byrja að taka þátt í keppninni halda áfram ár eftir ár.“

Margt í boði

Legókeppnin fer fram í Háskólabíói á morgun, laugardag, frá kl. 12:30 til 15:30. Á sama tíma verður boðið upp á fjölskylduskemmtun í anddyri Háskólabíós. Meðal annars verður vatn þar til umfjöllunar í anda keppninnar og fyrirtækið Krumma býður gestum að glíma við legóþrautir, rafknúinn kappakstursbíll Team Spark verður til sýnis og Vísindasmiðjan verður opin.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert