Marshall-húsið hlaut Hönnunarverðlaunin

Marshall húsið séð frá Reykjavíkurhöfn.
Marshall húsið séð frá Reykjavíkurhöfn. mbl.is/Einar Falur Ingólfsson

Hönnunarverðlaun Íslands fyrir árið 2017 voru veitt í gærkvöldi í Iðnó og hlutu þau að þessu sinni arkitektarnir Ásmundur Hrafn Sturluson og Steinþór Kári Kárason, eigendur arkitektastofunnar Kurt og Pí, fyrir hönnun Marshall-hússins sem sýninga- og veitingastaðar, sem þeir leiddu í samstarfi við ASK arkitekta.

Marshall-húsið var upphaflega byggt árið 1948 sem síldarbræðsla en er nú nýr vettvangur myndlistar við gömlu höfnina í Reykjavík.

Aðferðum hönnunar beitt til nýsköpunar

„Verkið kristallar velheppnaða umbreytingu eldra iðnaðarhúsnæðis fyrir nýtt hlutverk í samtímanum. Arkitektarnir þróuðu verkið allt frá hugmyndastigi og leiddu saman breiðan hóp til að skapa heilsteypt verk. Unnið er vel með sögu byggingar og samhengi staðar og til verður nýr áfangastaður á áhugaverðu þróunarsvæði í borginni. Verkið er gott dæmi um það hvernig beita má aðferðum hönnunar til nýsköpunar í borgarumhverfinu,“ segir í umsögn dómnefndar um Marshall-húsið.

Í dómnefnd sátu Sigríður Sigurjónsdóttir, formaður dómnefndar, en hún er forstöðumaður Hönnunarsafns Íslands og fyrrverandi prófessor í vöruhönnun við Listaháskóla Íslands; Katrín María Káradóttir, fagstjóri fatahönnunarbrautar Listaháskóla Íslands; Magnús Hreggviðsson, formaður félags íslenskra teiknara og grafískur hönnuður hjá auglýsingastofunni ennemm; Sigrún Birgisdóttir, arkitekt og deildarforseti hönnunar- og arkitektúrdeildar Listaháskóla Íslands; Tinna Gunnarsdóttir, sjálfstætt starfandi hönnuður og prófessor í vöruhönnun við Listaháskóla Íslands og Jóhanna Vidís Arnardóttir, verkefnastjóri á menntasviði og viðskiptastjóri á framleiðslusviði Samtaka iðnaðarins en Jóhanna sat í dómnefnd verðlaunanna fyrir hönd samtakanna.

Bláa lónið hlaut viðurkenningu

Einnig var afhent viðurkenning fyrir bestu fjárfestingu í hönnun og hlaut hana Bláa lónið. Viðurkenninguna hlýtur fyrirtæki sem hefur haft hönnun og arkitektúr að leiðarljósi alla tíð í þeim tilgangi að auka verðmætasköpun og samkeppnishæfni, eins og segir í tilkynningu.

Hugmyndasmiðirnir Börkur Arnarson, galleristi í i8, og arkitektarnir hjá Kurt …
Hugmyndasmiðirnir Börkur Arnarson, galleristi í i8, og arkitektarnir hjá Kurt og pí, Ásmundur Hrafn Sturluson og Steinþór Kári Kárason í Marshall-húsinu. mbl.is/Einar Falur
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert