Meintar mælivillur byggðar á misskilningi

Mynd úr safni Morgunblaðsins af grunnskólanemum.
Mynd úr safni Morgunblaðsins af grunnskólanemum. mbl.is/Árni Sæberg

Arnór Guðmundsson, forstjóri Menntamálastofnunar, kveðst fagna áhuga og úttekt Sigurbjargar Jónsdóttur kennara á PISA-verkefninu, sem fjallað var um í Morgunblaðinu á þriðjudag. Sigurbjörg skrifaði lokaritgerð í verkefnastjórnun við Háskólann í Reykjavík sem bar yfirskriftina Það er eitthvað skakkt við PISA. Þar komst hún að þeirri niðurstöðu að mælivilla væri í niðurstöðum verkefnisins hér á landi.

„Eins og réttilega er bent á er margt jákvætt í niðurstöðum PISA á Íslandi. Þar má nefna vellíðan nemenda, minni stríðni, minna skróp og meiri virðingu fyrir kennurum,“ segir Arnór.

„Sigurbjörg veltir upp áhugaverðum atriðum í ritgerð sinni s.s. hvernig staðið er að kynningu á PISA í skólum og hvort nemendur leggja sig fram. Þar eru greinilega tækifæri til að kynna skólastjórnendum könnunina betur og láta þeim í té efni til upplýsingar fyrir kennara, foreldra og nemendur.

Nokkurs misskilnings virðist þó gæta í þeim ályktunum sem hún dregur um meintar mælivillur í PISA. Virðast þær koma fram þegar hún veltir fyrir sér birtingu niðurstaðna eftir skólum, sem er annmörkum háð, og hætt við að séu óáreiðanlegar. PISA er hannað til að mæla menntakerfi en ekki skóla. Niðurstöður PISA um íslenska menntakerfið eru ekki villandi. Hins vegar geta niðurstöður einstakra skóla verið það. Á þessu er meginmunur,“ segir Arnór.

Öruggari niðurstöður hér

Bendir hann á grein Júlíusar Björnssonar, sem birtist í Skólavörðunni fyrr á árinu. Júlíus er forstöðumaður stofnunar um menntarannsóknir við Oslóarháskóla sem sér m.a. um fyrirlögn og greiningu alþjóðlegra menntakannana eins og PISA.

„Það skal einnig áréttað að allir skólar og flest allir nemendur á Íslandi taka þátt í rannsókninni, þó svo hægt væri að notast við minna úrtak. Úrtökin sem notuð eru í öðrum löndum eru um það bil jafn stór og allur nemendahópurinn á Íslandi og því eru allir prófaðir hér, svo samanburðurinn við önnur lönd verði sem réttastur. Ef minna úrtak væri notað á Íslandi þyrftu breytingar yfir tíma og munur á niðurstöðum milli Íslands og annarra landa að vera mun meiri en nú er til að þessi mismunur teldist marktækur. Þetta fyrirkomulag tryggir jafnframt að íslensku niðurstöðurnar eru mun öruggari en niðurstöður annarra landa, þar sem rannsóknin byggist bara á úrtaki nemenda,“ segir í grein Júlíusar.

Arnór segir að Menntamálastofnun hafi komið til móts við óskir stórra skóla um að fá sínar niðurstöður og þá gert fyrirvara um mögulegar skekkjur eða mælivillur.

„Þeir fyrirvarar eiga ekki við um mælingar á stöðu nemenda á Íslandi almennt. Þær eru jafnvel öruggari en mælingar í öðrum löndum.

PISA mælir ýmsa aðra þætti en hæfni í lestri, stærðfræði og náttúruvísindum. Íslendingar koma þar t.d. vel út í mælingum á vellíðan nemenda. Ekki hafa komið fram neinar athugasemdir við þær mælingar. Fer ekki að koma tími til að Íslendingar hætti að skjóta sendiboðann, taki niðurstöður um árangur nemenda alvarlega og vinni að því að bæta hann?“ segir Arnór.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert