Spá samfelldri snjókomu

Mynd úr safni.
Mynd úr safni. mbl.is/Golli

Búast má við samfelldri snjókomu á norðanverðu landinu sem varir eitthvað fram á laugardag. Áfram er nokkuð kalt í veðri og ekki miklar líkur á að hiti fari mikið yfir frostmark í dag. Þetta er meðal þess sem kemur fram í hugleiðingum veðurfræðings Veðurstofu Íslands í morgun.

Áfram heldur norðvestanhvassviðrið austast á landinu en nú bætir í vindinn og má búast við stormi eftir hádegi frá Langanesi suður á Austfirði. Í kvöld færist mesti vindstyrkurinn á Suðausturland, einkum suður af Vatnajökli. 

„Á morgun er nokkuð hægur vindur á öllu landinu með éljum N- og NA-lands, en víða bjart með köflum annars staðar. Síðdegis er útlit fyrir að éljabakki komi inn á vestanvert landið, þar á meðal höfuðborgarsvæðið. 

Á sunnudag er útlit fyrir skaplegasta veður framan af en svo eru (bókstaflega) blikur á lofti þegar skil nálgast úr suðvestri, það þykknar upp, hvessir og hlýnar. Aðfaranótt mánudags er síðan útlit fyrir stífa sunnanátt með rigningu,“ segir á vef Veðurstofu Íslands.

Spáin fyrir næstu daga

Norðvestan 10-18 m/s A-til, en 18-25 síðdegis, hvassast við ströndina. Breytileg átt 3-8 m/s V-lands. Víða él, en bjartviðri SA-til. Snjókoma um landið N-vert seint í kvöld og nótt og lægir fyrir austan.
Norðlæg eða breytileg átt 3-10 á morgun og él N- og NA-lands, en bjart með köflum annars staðar. Líkur á éljum vestast síðdegis og annað kvöld. Hiti um og undir frostmarki.

Á laugardag:

Norðlæg eða breytileg átt 3-8 m/s, en 8-13 með A-ströndinni. Snjókoma um landið N-vert, en léttskýjað syðra. Útlit fyrir stöku él vestast um kvöldið. Frost 0 til 7 stig, en sums staðar frostlaust við ströndina. 

Á sunnudag:
Breytileg átt 3-8, víða léttskýjað og kalt í veðri. Vaxandi suðaustanátt V-lands um kvöldið með hlýnandi veðri og rigningu. 

Á mánudag:
Ákveðin sunnanátt í fyrstu með rigningu eða slyddu á láglendi, en snjókomu til fjalla. Suðvestlægari og skúrir eða slydduél þegar líður á daginn, fyrst vestantil. Hiti 1 til 5 stig. 

Á þriðjudag:
Suðvestanátt og slydduél eða él, en léttskýjað á NA- og A-landi. Hiti að 5 stigum SV-til, en annars víða vægt frost. 

Á miðvikudag:
Suðlæg átt með rigningu um landið S-vert og hlýnandi veður, en slydda eða snjókoma V-lands. Bjart og kalt í veðri NA-til. 

Á fimmtudag:
Útlit fyrir ákveðna norðanátt með snjókomu fyrir norðan, en slyddu eða rigningu A-lands. Að mestu þurrt sunnan heiða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert