Tekin með mikið magn lyfja

AFP

Tollverðir í Flugstöð Leifs Eiríkssonar tóku fjóra komufarþega um síðustu helgi, sem allir voru með umtalsvert magn af lyfseðilsskyldum lyfjum í fórum sínum. Um var að ræða íslenska einstaklinga, þrjá karlmenn og eina konu, samkvæmt upplýsingum frá tollstjóraembættinu.

Samtals voru á þriðja þúsund töflur haldlagðar, sem fólkið hafði ýmist falið í nærklæðum sínum, ytri fatnaði og/eða í farangri. Til viðbótar reyndist einn fjórmenninganna hafa komið stórri töflupakkningu fyrir innvortis sem hann losaði sig við eftir að hann hafði verið færður á lögreglustöð. Ekki liggur fyrir hve margar töflur pakkningin hafði að geyma.

„Stór hluti lyfjanna sem haldlögð voru reyndust vera sterk morfínskyld lyf og einnig var um að ræða töluvert magn af sterkum örvandi lyfjum. Þessar lyfjategundir sem um ræðir eru háðar sérstöku eftirliti heilbrigðisyfirvalda og eru eftirritunarskyldar.

Á heimasíðu SÁÁ kemur fram í nýlegri úttekt að fleiri og fleiri mismunandi sérlyf, sem hafa að geyma ópíóíða eða morfínskyld efni, komi inn á vímuefnamarkaðinn og gangi þar kaupum og sölum. Jafnframt að sjúklingar sem nota vímuefni í æð virðist nú sækja mest í svokölluð oxycodon-lyf, en nokkur hundruð töflur af þeirri tegund voru haldlagðar um helgina.

Tveir karlmannanna sem um ræðir voru saman á ferð og voru að koma frá Alicante. Annað hinna kom frá Madrid og hitt frá Barcelona,“ segir í tilkynningu frá tollstjóra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert