Þarf ekki hreinsibúnað í köld ker

Kaldur pottur er í Grafarvogslaug.
Kaldur pottur er í Grafarvogslaug. mbl.is/Jim Smart

Í sundlaugum landsins hafa víða verið settir upp kaldir pottar, laugar eða jafnvel fiskikör með vatnsslöngu ofan í með köldu vatni þar sem hitastigið er á bilinu 0-16°. Samkvæmt breytingum á reglugerð um hollustuhætti á sund- og baðstöðum og reglugerð um baðstaði í náttúrunni sem tóku nýverið gildi er ekki er gerð krafa um hreinsibúnað eða sótthreinsun í köldum kerum ef hægt er að tryggja heilnæmi vatnsins á annan hátt.

Hins vegar er gerð krafa um að slíkir kaldir pottar séu hreinsaðir reglulega t.d. með því að tæma þá reglulega og tryggja nægjanlegt vatnsstreymi til að vatnið haldist hreint.  

Heilbrigðiseftirlitið í Reykjavík hefur bent á að til að halda köldum pottum hreinum þurfi að setja upp hreinsibúnað í þá alveg eins og alla aðra potta, að sögn Steinþórs Einarssonar, skrifstofustjóra ÍTR.   

„Þar sem aðsóknin í laugar okkar og þessa potta er mikil dugar ekki annað en að setja upp hreinsibúnað, sem við höfum gert og munum halda áfram að gera,“ segir Steinþór. 

Kaldir pottar í sundlaugum Reykjavíkur eru því með hreinsibúnað. Kaldir pottar eru í þremur sundlaugum borgarinnar; Vesturbæjar-, Laugardals- og Grafarvogslaug. Á næstunni verður komið upp köldum pottum í Breiðholtslaug og Árbæjarlaug. Kostnaðurinn við að koma upp köldum potti í einni sundlaug er um 3,5 til 4 milljónir króna. 

Baðstaðir í náttúrunni falla undir afþreyingarlaugar

Breytingar á reglugerð um baðstaði í náttúrunni varða fyrst og fremst skilgreiningar, sótthreinsun á baðstöðum og sýnatöku. Undanfarið hefur laugum í náttúrunni fjölgað sem nýta sér heitt affallsvatn og falla þær nú undir reglugerðina sem afþreyingarlaugar. Þær verða starfsleyfisskyldar og ef gerlafjöldi mælist ítrekað yfir hámarksgildum er heimilt að takmarka gestafjölda. 

„Óheimilt er að nota sótthreinsiefni á baðstöðum í náttúrunni en heilbrigðisnefnd getur þó heimilað eða fyrirskipað sótthreinsun á tilteknum baðstöðum til að draga úr gróðurmyndun eða til að sótthreinsa vatnið ef gerlafjöldi mælist endurtekið yfir hámarksgildum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert