Undirbúa uppbyggingu á KR-svæðinu

KR-heimilið í Frostaskjóli.
KR-heimilið í Frostaskjóli. mbl.is/Sigurður Bogi

Borgarráð hefur samþykkt viljayfirlýsingu milli Knattspyrnufélags Reykjavíkur og Reykjavíkurborgar um mögulega uppbyggingu á KR-svæðinu við Frostaskjól.

Í viljayfirlýsingunni kemur fram að sameiginlega verði unnið nýtt deiluskipulag fyrir svæðið samkvæmt þeim tillögum sem liggja fyrir og hafa verið kynntar í umhverfis- og skipulagsráði borgarinnar. Þar er gert ráð fyrir um 32 þúsund fermetra aukningu á byggingarmangi þar sem heildaraukning á aðstöðu KR nemur allt að 12 þúsund fermetrum. Tæpir 10 þúsund fermetrar verða til fyrir íbúðir og um 10 þúsund fermetrar undir verslun og þjónustu.

Einnig er gert ráð fyrir um 350 bílastæðum. Heildarbyggingarmagn á svæðinu yrði um 35.800 fermetrar.

Borgarráð samþykkti að fela umhverfis- og skipulagssviði formlega deiliskipulagsvinnu í samstarfi við félagið. Reykjavíkurborg mun kosta gerð deiluskipulagsins sem síðar verður hluti af uppbyggingarkostnaði þegar þar að kemur.

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram bókun þar sem deiluskipulagsvinna er studd á svæði KR svo unnt sé að ráðast í byggingu íþróttamannvirkja þar.

„KR glímir nú þegar við mikinn aðstöðuvanda og er því frekari uppbygging íþróttamannvirkja í Vesturbænum löngu tímabær. Sjálfsagt er að skoða hugmyndir um byggingu íbúða og atvinnuhúsnæðis á svæðinu svo fremi að tryggt sé að þær fari vel í umhverfinu og hafi ekki neikvæð áhrif á framtíðarmöguleika KR til að efla enn frekar starf sitt í þágu íþrótta- og æskulýðsmála,“ segir í bókuninni.

„Rétt er að hafa í huga að útlit er fyrir mikla þéttingu byggðar í Vesturbænum á næstu árum sem gæti haft í för með sér að íbúum hverfisins fjölgi um a.m.k. 5.500 manns eða 33%. Slík fjölgun mun stórauka kröfur til KR og er því mikilvægt að borgaryfirvöld tryggi félaginu nægilegt athafnarými til framtíðar. Jafnframt þarf að ræða hvort eðlilegt sé að hverfisíþróttafélag eins og KR þurfi að ganga á takmarkað athafnasvæði sitt og ráðstafa hluta þess undir þétta byggð til að fjármagna eðlilega uppbyggingu íþróttamannvirkja.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert