Ræddu framtíðina í skólastofum

Sýndarveruleiki í skólastofum var meðal umræðuefna.
Sýndarveruleiki í skólastofum var meðal umræðuefna. Björn Jóhann Björnsson

Um 130 kennarar af öllu landinu komu saman í dag til að ræða upplýsingatækni og skólaþróun á námsráðstefnunni UTís (upplýsingatækni í skólastarfi) sem haldin var um helgina í Árskóla á Sauðárkróki í þriðja sinn. Ráðstefnan stóð yfir í þrjá daga og komust færri að en vildu. „Þetta var kraftmesta skólafólk landsins sem kom saman og var að deila og læra. Við vorum aðallega að ræða upplýsingatækni og skólaþróun en svona viðburður snýst líka um að mynda tengsl og heyra hvað aðrir eru að gera,“ segir Ingvi Hrannar Ómarsson, skipuleggjandi ráðstefnunnar. 

Þetta er í þriðja skipti sem UTís er haldin en hún hefur stækkað ár frá ári að sögn Ingva. „Við vorum rétt tæplega 60 fyrst, 90 í fyrra, núna vorum við um 130 og það voru 85 á biðlista þannig að það komust færri að en vildu.“

Skoða framtíðina í skólastofum landsins

Helstu mál úr heimi upplýsingatækni í skólastarfi voru rædd á ráðstefnunni. „Við vorum til dæmis að vinna með sýndarveruleika og það fóru fram ýmsar vinnustofur. Þar var til dæmis unnið með verkefnið rödd nemenda sem snýst um að gera hlaðvörp og blogg og fleira í skólastarfi, við vorum líka að vinna með iPad og listgreinar, forritun í kennslu og Makers Space sem er svæði fyrir nemendur til að gera uppfinningar og tilraunir.“

Mikið rædd á Twitter

27% tísta Íslendinga í gær snerust um ráðstefnuna, en skoða má umræðuna undir myllumerkinu UTís2017. Líkt og áður segir hefur ráðstefnan vaxið ár frá ári en í ár komu fjórir erlendir fyrirlesarar fram á henni. „Við fengum erlenda fyrirlesa á ráðstefnuna, tvo frá Bandaríkjum, einn frá Danmörku og einn frá Englandi. Þau voru með forritun og margt fleira til að koma með nýja vídd í starfið og miðla til okkar,“ segir Ingvi Hrannar og bætir við að UTís verði haldin aftur að ári. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert