Það er vændi í óperuheiminum

Halla Margrét segir vændi í óperuheiminum. Hún segist ekki hafa …
Halla Margrét segir vændi í óperuheiminum. Hún segist ekki hafa farið sex þúsund kílómetra og lagt á sig ómælda vinnu til þess að verða mella. Ásdís Ásgeirsdóttir

Óperutónlist Verdis ómar um Lundakaffihúsið í Parma á Ítalíu þegar blaðamaður gengur þar inn. Það er notalegt um að litast, kertaljós og kósíheit og á píanóinu er uppstoppaður lundi í glerkassa. Glæsileg kona er á þönum við barinn; hún er hávaxin, grönn, með hnút í ljósa hárinu, í svartri dragt og með rauðan varalit. Óperusöngkonan og veitingahúsaeigandinn Halla Margrét Árnadóttir rýkur á blaðamann og heilsar með virktum. Hún er íslensk í húð og hár en hefur smitast af ítölsku fasi; talar mikið og brosir mikið. Hún gefur sér tíma frá amstri dagsins og sest niður yfir kaffibolla og eftir að lækkað hefur verið í Verdi hefjum við spjallið.

Heimsfræg á einni nóttu

Halla Margrét hefur búið á Ítalíu síðasta aldarfjórðung en þangað fór hún ung til náms í óperusöng eftir söngnám hér heima og mikið Eurovision-ævintýri. Ófáir Íslendingar muna eftir henni þegar hún söng lagið Hægt og hljótt svo eftirminnilega.
Hún segir að þessi mikli söngáhugi hafi alltaf verið til staðar, frá blautu barnsbeini.
„Afi var organisti þannig að ég ólst upp við pedalana á orgelinu hans heima og söng Hærra minn guð til þín þegar ég var þriggja ára, alla sálmana. Ég saug alla tónlist í mig. Eins þegar ég var í sveitinni, þá var sungið í fjósinu. Og þegar ég var að æfa fimleika var alltaf sungið í sturtunum. Við bjuggum til kór og sungum hástöfum. En ég áttaði mig þá ekki á því að ég yrði söngkona, það kom seinna,“ segir Halla Margrét um upphafið að söngferlinum.
„Svo verð ég þess happs aðnjótandi að verða heimsfræg á Íslandi á einni nóttu,“ segir hún og á við Eurovision-ævintýrið. Halla Margrét fór árið 1987 fyrir hönd Íslands til Belgíu. Þar lentum við í því kunnuglega sextánda sæti en Johnny Logan stóð uppi sem sigurvegari með lagið Hold me now. Gente di Mare, ítalska lagið sem lifað hefur góðu lífi, lenti í þriðja sæti það árið.
„Þegar ég verð fræg þá standa mér allar dyr opnar í dægurlagaheiminum. Ég var náttúrulega gullkista fyrir útgefendur og það bjuggust allir við að ég myndi halda áfram á þessari braut. Ég fór í raun á móti mörgum og bauð þeim birginn og sagði nei,“ segir hún.
„Það er erfitt að vera frægur á Íslandi og ég var ekki tilbúin; ég var óþroskuð og gat ekki höndlað frægðina. Þetta var mikil reynsla fyrir mig en ég ætlaði mér aldrei að verða poppsöngkona. Einhvern veginn hef ég alltaf valið erfiðu leiðina frekar en þá auðveldu,“ segir Halla Margrét sem segist hafa ákveðið að kúpla sig út og einbeita sér að óperusöngnámi, fyrst hérlendis og síðar á Ítalíu.
„Eflaust hafa einhverjir í faginu upplifað það sem hroka, að segja skilið við frægðina á Íslandi. Þannig að ég skildi við þennan heim kannski dálítið á flótta. Og ég sé það í dag, svona eftir á.“

Halla Margrét vildi gjarnan fá að syngja óperu á Íslandi.
Halla Margrét vildi gjarnan fá að syngja óperu á Íslandi. Ásdís Ásgeirsdóttir

Vildi fá að syngja á Íslandi

Í borginni Parma er Halla Margrét vel þekkt og þar debúteraði hún í hinu fræga óperuhúsi Teatro Regio. Hún saknar þess samt að fá ekki að syngja í óperu í heimalandinu.
„Íslendingar fá mjög lítið að heyra í mér, ég hef ekki haft tíma til að koma oft heim og sjá sjálf um tónleikahald og ég hef hingað til ekki fengið boð frá Íslensku óperunni að syngja heima. Ég er ekki að biðja um að fá vinnu á Íslandi, heldur að ég fái séns á að fara í áheyrnarprufu. Ég hef aldrei fengið það þrátt fyrir að ég hafi beðið um að láta mig vita og mikið hefði ég viljað fá að syngja fyrir hlutverkin í óperum eins og Cavalleria Rusticana og Tosca sem ég hef sungið ótal mörgum sinnum hér úti. Þá er ég ekki að tala um Íslensku óperuna eftir að núverandi stjórnendur tóku við og tími minn hefur ekki farið í að banka á íslenskar dyr undanfarið,“ útskýrir Halla Margrét.
„Núna bíður mín Aida í lok mánaðar og svo syng ég Toscu í Parma í apríl,“ segir hún og bætir við að hún fylgist vel með íslenskum kollegum sínum og vinum.
„Ísland á orðið marga frábæra söngvara. Þannig að kannski þarf Ísland ekkert á mér að halda. En þegar ég syng heima, þá finn ég svo mikla ást. Fólk gefur mér svo mikið til baka og hamingjan er tíföld þegar maður syngur fyrir landa sína.“

Paolo di Vita bað Höllu Margréti að drekka með sér …
Paolo di Vita bað Höllu Margréti að drekka með sér kaffi, þegar þau voru stödd á rauðu ljósi. Hún þáði kaffið og endaði á að giftast honum. Ásdís Ásgeirsdóttir

Ást á rauðu ljósi

Ástin bankaði upp á endur fyrir löngu á Ítalíu hjá Höllu Margréti.
„Ég á ítalskan mann þannig að það hefur æxlast þannig að ég er hér,“ segir hún og blaðamanni leikur forvitni á að heyra af þeirra fyrstu kynnum, fyrir nítján árum.  „Ég vann á veitingastað í hádeginu sem þjónn, með náminu. Í átta mánuði kom hér maður í hádeginu að borða. Ég vissi aldrei hvað hann hét. Einn föstudag ákvað ég að segja upp og hætta. Það var vinur minn sem keyrði mig heim og við stoppuðum á rauðu ljósi. Við hliðina á okkur stansar bíll og í honum er maðurinn frá hádeginu. Hann dregur niður rúðuna, en hann hafði aldrei talað við mig því hann er svo feiminn, og spyr: má ég bjóða þér í kaffi? Núna? svara ég og segi svo strax: ókei. Og ég fór upp í bílinn hans þarna á rauða ljósinu og ég endaði á að giftast honum,“ segir Halla Margrét og brosir. 
„Við byrjuðum strax saman og í nokkra mánuði bauð hann mér aldrei út að borða, alltaf bara í kaffi! Og kaffið hefur alltaf loðað við okkur, og við enduðum á að kaupa kaffistað, Lundakaffi.“
Halla Margrét hafði á þessum átta mánuðum áður afgreitt hann og viðurkennir að hún hafi verið dálítið skotin í honum. „Ég gleymi því aldrei að eitt sinn þegar ég var að skenkja honum vín, þá titraði ég svo. Og hann er að ganga hér inn núna!“ segir Halla Margrét og hlær. Hún kynnir mig fyrir Paolo Di Vita, ítölsku ástinni sem kom inn í líf hennar á réttu augnabliki.
„Málið er það, að ef hann hefði ekki boðið mér í kaffi á rauðu ljósi, akkúrat á þessum degi, þá hefði hann aldrei fundið mig aftur. Af því að ég var að hætta þennan dag. Svona eru örlögin,“ segir Halla Margrét og telur líklegt að hún hefði flutt heim ella.
„Paolo er barþjónn og veitingamaður og átti veisluþjónustu þegar við kynntumst. Og tæpu ári seinna byrjaði ég að syngja víða um Ítalíu. Guðfinna mín var þá fimm ára og hann flutti inn og varð strax mikill pabbi, því ég var svo mikið í burtu. Hún á tvo pabba og þeir eru henni báðir mjög mikilvægir,“ segir hún.

Söngferill fyrir kynlíf

Halla Margrét segir óperustarfið á Ítalíu vera ótryggt starf. „Það er enginn fastráðinn og það er mjög mikil spilling. Á tímabili stóð mér til boða stórt hlutverk en þegar ég gerði mér grein fyrir því hvað ég þurfti að borga fyrir það hlutverk þá svaraði ég: Ég fór ekki sex þúsund kílómetra til þess að vera mella. Ég fór sex þúsund kílómetra og færði margar fórnir til þess að syngja. Þetta svar mitt varð mjög örlagaríkt. Því með því að svara svona hreint út var ég búin að loka á mig. Hér er óperuheimurinn í rauninni mjög lítill. Allir óperustjórnendur þekkjast og eru saman í sérstöku neti. Og versti óvinur þeirra er listamaður sem þeir halda að gæti kært þá. Það er óvinur þeirra,“ segir hún.
„Nú er maður að sjá á Facebook og alls staðar ásakanir um kynferðislega áreitni. Ég verð að viðurkenna að ég svolítið orðlaus yfir þessu vegna þess að það vita allir að listaheimurinn gengur út á þetta. Gengur út á spillingu og að selja sig.“
Var í alvöru ætlast til að þú svæfir hjá einhverjum óperustjóra til að fá hlutverk?
„Já, og ekki bara honum. Því málið er það, að ef þú sefur hjá þessum þá er símanúmeri þínu dreift og sagt, hún er mjög góð fyrir þetta hlutverk. Og það vita allir hvað það þýðir. Þetta er spurning um vald. Ég sagði nei fyrir tólf árum en hef þurft að súpa seyðið af því. Ég var þessi hættulega. Ég komst í tölvupóst þar sem verið var að skrifa um mig. Þar var óperustjóri að tala við umboðsmann og það var talað um að ég væri ekki stabíl á taugum, að ég væri hættuleg. Ég tók mína ákvörðun fyrir tólf árum og sagði NEI en nú eru þessar konur sem tóku aðrar ákvarðanir að stíga fram. Mér finnst við hefðum átt að segja nei fyrr. Og ég hefði viljað sjá fleiri segja nei. Ég var ein. Þó að þetta hafi skemmt fyrir mér, þá sit ég hér með mitt mannorð hreint og líður ekki illa í sálinni. En fyrir bragðið hef ég eignast óvini,“ segir Halla Margrét og bætir við að vissulega hafi hún oft lent í áreitni í formi káfs.
„Hér á Ítalíu er mikið framboð á góðum söngkonum sem eru frá fátækum þjóðum og þá er þröskuldurinn lægri og sumar blindaðar af frægð og frama og þá er allt gert til að komast áfram. Þannig hafa margar starfssystur mínar skemmt fyrir okkur öllum og tekið þátt í þessu ógeði sem vændið er, því um vændi erum við að tala,“ segir hún.

Fer í trans á sviði

„Ég hef lært í gegnum tíðina að fara í kringum þetta og hef aflað mér nafns og í dag finn ég mikla velvild og virðingu. Ég er mjög stolt af því að allt sem ég hef gert og allt sem mér hefur verið boðið hefur verið vegna eigin verðleika. Og vegna minna fórna. Ég hef áður verið heimsfræg, þó að það hafi bara verið á Íslandi. Ég veit hvað það er og er ekki að leita að því. Ég hef enga þörf fyrir það. Ég vil gefa það sem ég á í hjartanu. Og með því að fá góð hlutverk sem henta mér, þá er ég að gefa fólki mitt gull, gullið í kistunni minni.“
Hvað er skemmtilegast við að vera óperusöngkona?

„Þegar ég er á sviði þá held ég að ég fari aðeins í trans. Ég finn það að ég hef svo mikið að gefa fólki. Og það er svo dásamleg tilfinning að finna að allt það sem þú ert að gefa fær maður til baka frá áhorfendum. Þá ertu búin að ná þessu. Þegar þú finnur það, er það þín mesta fullnæging í söngnum. Og að finna frelsið frá tækninni. Þegar þú ert ekki lengur að hugsa um tæknina, hún er þar en þú getur bara hugsað um að gefa. Ég hugsa um orðin, og þótt enginn skilji orðin þá þarftu að skilja hvaða tilfinningu þú ert að gefa fólki. Orð í óperu skipta ekki miklu máli, heldur tilfinningin á bak við orðin. Hjarta í hjarta. Ég held að þetta sé köllun hjá mér. Og ég reyni að næla í þetta alls staðar. Ekki bara í söngnum, líka í uppskriftum hér á Lundakaffi. Hjarta í hjarta.“
Verður þú betri söngkona með árunum?
„Já, ég hef aldrei verið betri en núna. Ég er loksins að verða ánægð.“

Viðtalið í heild sinni er í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina. 

Halla Margrét segist hafa sagt nei fyrir tólf árum en …
Halla Margrét segist hafa sagt nei fyrir tólf árum en það var ætlast til að hún svæfi hjá hátt settum mönnum innan óperuheimsins. Ásdís Ásgeirsdóttir
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert