„Ranglátari getur málsmeðferð vart orðið“

Grensáskirkja.
Grensáskirkja. mbl.is

Biskup Íslands, Agnes Sigurðardóttir, er borin þungum sökum í bréfi sem lögmaður sr. Ólafs Jóhannssonar, sóknarprests í Grensáskirkju, hefur ritað henni. Tilefnið er ákvörðun Agnesar um að áminna Ólaf og senda hann í leyfi vegna ásakana um kynferðislegt áreiti. 

Lögmaðurinn, Einar Gautur Steingrímsson, segir ljóst að ekkert liggi fyrir um að slík áreitni hafi átt sér stað. Frásögn konunnar sem um sé að ræða lýsi efnislega ekki kynferðislegu áreiti. Ólafur hafi aðeins tekið utan um hana og kysst á hvora kinn í kveðjuskyni.

Frétt mbl.is: Prestur sakaður um kynferðisbrot

Einar gagnrýnir enn fremur að andmælaréttur Ólafs hafi ekki verið virtur áður en gripið hafi verið til aðgerða gegn honum af hálfu þjóðkirkjunnar á grundvelli hinna meintu brota. Þannig hafi honum ekki verið veitt tækifæri til andmæla fyrr en eftir að ákvörðun lá fyrir.

Með því hafi biskup brotið þá reglu að ekki megi taka ákvörðun fyrr en mál hafi verið rannsakað og andmælafrestur veittur. Málið hafi verið gjörsamlega órannsakað í skilningi stjórnsýslulaga. Biskup hafi sakað sr. Ólaf um kynferðislegt áreiti að ástæðulausu.

Rannsókn meira en að hlusta á sögur

Þar með hafi Agnes brotið gegn ákvæði almennra hegningarlaga sem leggi bann við slíkum aðdróttunum. Mælir Einar enn fremur með því að biskup kynni sér einnig 9. vers Júdasarbréfs í Biblíunni í því sambandi. Biskup hafi dæmt án þess að vita nóg um málavexti.

Rannsókn fæli það ekki í sér að hlusta einvörðungu á sögur. Einar segir að sr. Ólafi hafi brugðið við ásakanirnar og orðið fyrir vægu áfalli. Honum hafi einnig þótt undarlegt að ekki hafi mátt láta reyna á sættir í málinu áður en lengra væri haldið með það.

Sr. Ólafur hafi ekki lagst gegn því að málið væri skoðað í bréfi til biskups heldur aðeins að hann væri ekki talinn sakamaður án þess að sök lægi fyrir. Biskup hafi hins vegar ákveðið að sr. Ólafur hefði unnið sér til refsingar með því að nota orðið kynferðisbrot.

Einar vitnar í minnisblað þar sem Agnes hafi sagt að hún hefði orðið þess áskynja að sr. Ólafur væri sekur og því ákveðið að veita áminningu. Ekki liggi hins vegar fyrir hvers biskup hafi orðið áskynja. Staðreyndin væri sú að málið væri algerlega óupplýst.

Lögin ekki samin á biskupsstofu

Kemst Einar að þeirri niðurstöðu að biskup telji kynferðisbrot felast í upplifunum og hugtakanotkun þess sem kvarti en ekki af lögum. Enn fremur telji Agnes sönnur ekki byggjast á gögnum og frásögnum beggja aðila heldur sinni eigin upplifun.

Þakkar Einar Guði fyrir veraldlega dómstóla til þess að ekki þurfi að þola til lengdar slíka sleggjudóma. Minnir hann á að 500 ár séu nú liðin frá upphafi siðbótar Marteins Lúters sem ekki hafi viljað að kirkjan væri yfirþjóðleg stofnun með eigin lög og réttarfar.

Einar tekur fram að bréfið sé ritað á afmælisdegi Lúters og við hæfi að benda á að lög og réttarfar þegar komi að málum sem þessu sé ekki samið á biskupsstofu heldur Alþingi. Samkvæmt þeim lögum liggi fyrir að sr. Ólafur hafi engin lög brotið.

Einar sakar biskup enn fremur um að hafa lagt sr. Ólaf í einelti og beitt hann vaxandi andlegu ofbeldi vegna málsins. Hann hafi ákveðið að fara að vilja biskups og fara í leyfi gegn því að málið yrði ekki rekið í fjölmiðlum. Hins vegar hafi ekki verið staðið við það.

Framgangan vegna eldri mála?

Tekur Einar fram að ekki sé verið að gera lítið úr eða efast um rétt og skyldur kirkjunnar til þess að ganga í málin þegar lýst er sársauka vegna samskipta við þjóna hennar heldur að gagnrýna löglausar og smekklausar aðfarir gagnvart sr. Ólafi og fjölskyldu hans.

Einar veltir því fyrir sér í bréfinu hvort ástæðan fyrir framgöngu biskups sé gagnrýni á hana vegna eldri mála og að ætlunin hafi verið að sýna hvað í kirkjunni byggi. Þar hefði hins vegar gleymst að sr. Ólafur væri einstaklingur af holdi og blóði sem og fjölskylda hans.

Svo virtist sem Agnes hafi ekki viljað blanda lögreglunni í málið. Minnir Einar hins vegar á að lögreglan rannsaki mál með réttlátri málsmeðferð sem kirkjan gerði greinilega ekki „Ranglátari getur málsmeðferð vart orðið.“ Fer sr. Ólafur fram á skaðabætur vegna málsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert