Vetrarveðrið tefur verklokin

Borgarfjarðarbrú. Endurnýjun hefur staðið yfir með hléum í fimm ár …
Borgarfjarðarbrú. Endurnýjun hefur staðið yfir með hléum í fimm ár og kostað samtals 520 milljónir. mbl.is/Árni Sæberg

„Ef við steypum í næstu viku þá klárum við vikuna á eftir,“ segir Ingunn Loftsdóttir, verkfræðingur hjá Vegagerðinni um verklok við Borgarfjarðarbrú. Vegagerðin hefur unnið við að endurnýja brúargólfið með hléum frá því í ágúst 2012. Nú sér fyrir endann á verkinu, röskum fimm árum og hálfum milljarði síðar.

Frétt mbl.is: Hver metri með of­ur­steypu kost­ar eina millj­ón

Umferðarstýring hefur verið á Borgarfjarðarbrú meira og minna síðustu árin. Brúarsmiðir Vegagerðarinnar hafa, eftir fjárveitingum og tíma, unnið að því að brjóta upp efsta lag brúargólfsins og steypa nýtt. Við verkið hefur vatnsbrotstæki verið notað en það hefur þá eiginleika að brjóta upp steypuna án þess að rjúfa járngrindur. Ingunn segir að komið hafi verið slit í brúna og svo hafi grindurnar á kafla legið ofar en þær hefðu átt að gera. Járnin hafi því verið komin í gegn á kafla. Hún segir að ekki hafi verið hægt að leggja nýja steypu yfir án þess að skerða burðarþol brúarinnar. 

„Þessi steypa er sterk og á að endast. Hún var í raun sérhönnuð fyrir þetta verk,“ segir Ingunn en viðgerðirnar hafa að hennar sögn kostað um 515 milljónir króna. Borgarfjarðarbrúin var vígð í september árið 1981 og stytti leiðina yfir Borgarfjörðinn um ellefu kílómetra. Hún er stærsta brú landsins þegar horft er til flatarmáls, tæpir 4.700 fermetrar. Brúin er 520 metra löng en brúin á Skeiðarársandi er lengri, þó að hún sé minni að flatarmáli, 880 metrar.

Ingunn segir að flóðin á Suðausturlandi í september hafi sett strik í reikninginn því brúarsmiðir Vegagerðarinnar hafi þá þurft að fara austur til þess að byggja brú yfir Steinavötn. Til stóð að ljúka framkvæmdum við Borgarfjarðarbrú 14. nóvember, en það er á morgun. Ingunn bindur vonir við að framkvæmdinni ljúki fyrir 1. desember en nú er beðið eftir hagstæðum veðurskilyrðum til að ljúka verkinu. Frostið hefur þar sett strik í reikninginn.

Nýtt lag yfir það gamla hefði rýrt burðarþol Borgarfjarðarbrúar.
Nýtt lag yfir það gamla hefði rýrt burðarþol Borgarfjarðarbrúar. mbl.is/Theodór Kr. Þórðarson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert