„Ekkert í lögum sem bannar þetta“

Jón Steinar Gunnlaugsson.
Jón Steinar Gunnlaugsson.

Jón Steinar Gunnlaugsson, hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi dómari við Hæstarétt, viðurkennir að hafa reynt að að hafa áhrif á niðurstöðu dómsins yfir Baldri Guðlaugssyni, fyrrverandi ráðuneytisstjóra í fjármálaráðuneytinu, með því að afhenda dómurum sem dæmdu í málinu í Hæstarétti minnisblað með lögfræðilegum upplýsingum. Baldur var dæmdur í tveggja ára fangelsi fyrir innherjasvik árið 2012, en Jón Steinar var vanhæfur í málinu vegna vináttu sinnar við Baldur.

Greint var frá því í fréttum RÚV í kvöld að Jón Steinar viðurkenndi að hafa beitt samdómara sína þrýstingi í málinu og í stefnu Benedikts Bogasonar hæstaréttardómara á hendur Jóni Steinari, sem RÚV vitnar í, eru þessi afskipti sögð brot á lögum um dómstóla. Benedikt hefur stefnt Jóni Steinari fyrir meiðyrði, vegna ummæla sem hann lætur falla í nýútkominni bók sinni; Með lognið í fangið.

„Þarna er verið að upplýsa um það sem stefnandi telur greinilega vera voðalega mikið mál; að ég hafi afhent dómurunum, áður en þeir dæmdu mál Baldurs Guðlaugssonar, þetta minnisblað,“ segir Jón Steinar í samtali við mbl.is „Ef það er þrýstingur, að reyna að fá menn til þess að skilja lagagrundvöllinn í máli, þá beitti ég þá þrýstingi.“ Aðspurður segist Jón Steinar ekki hafa reynt að hafa áhrif á niðurstöðu málsins með öðrum hætti.

„Þegar dómsforseti kom til mín og kveinkaði sér undan því að ég skyldi hafa afhent þetta blað, þá lét ég af öllum slíkum afskiptum. Ég fann að það var einhver andúð á því, sem var engin ástæða til.“

En þú vildir með því reyna að hafa áhrif á niðurstöðu dómsins?

„Já, ég taldi sjálfur að það stæðist ekki að sakfella þennan mann í þessu máli og hafði fyrir því lögfræðileg rök, þó að  hann sé vinur minn. Það eina sem ég gerði var að leggja til þeirra lögfræðilegar röksemdir, ekki erindi um að þeir ættu að sýkna Baldur af einhverjum huglægum ástæðum.“

„Á þessu blaði er ekkert annað en lögfræði“

Í minnisblaðinu sem um ræðir, og sjá má hér að neðan, varpar Jón Steinar fram nokkrum lögfræðilegum spurningum sem snerta sakarefnið í málinu gegn Baldri, og svarar þeim jafnframt.

„Á þessu blaði er ekkert annað en lögfræði. Það er verið að spyrja lögfræðilegra spurninga sem skipta máli fyrir meðferð málsins og veitt svör við þeim, sem eru nú sennilega að langmestu leyti augljóst þegar menn horfa á þau. Þegar ég afhenti þeim þetta blað þá var komin upp af þeirra hálfu, einhvers konar vísbending um það að þeir ætluðu að fara að fremja vont dómaraverk með því að dæma þennan mann að ósekju fyrir það sem hann var ákærður fyrir.“

Jón Steinar segir að tilvist minnisblaðsins, og það að hann hafi látið dómarana fá það áður en þeir kváðu upp dóminn, sýni betur en nokkuð annað hversu einbeittir þeir voru í því að sakfella Baldur, sama hvað lögfræðin segði.

„Þó að þeir fengju þarna augljósar vísbendingar um að það stæðist ekki að sakfella manninn, þá gerðu þeir það samt. Það er enn frekari vísbending um að þeir voru búnir að ákveða niðurstöðu málsins fyrifram.“

Algengt að dómrarar tali saman

Í stefnu Benedikts Bogasonar á hendur Jóni Steinari eru þessi afskipti sögð brot á lögum, líkt og áður segir. „Það er fjarri öllu sanni,“ segir Jón Steinar. „Það er ekkert í lögum sem bannar þetta og það er mjög algengt að dómarar í Hæstarétti tali saman um dómsmálin, líka við þá sem ekki sitja í viðkomandi máli.“

Jón Steinar bendir á að Baldur sé vissulega vinur hans og hann hafi haft áhuga málinu þar sem hann þóttist sjá að það ætti að fara að fremja á honum dómsmorð.

„Ég lét það eftir mér að senda þeim þessa lögfræðilegu punkta, ef það hefði mátt opna augu þeirra, en allt kom fyrir ekki. Hafi eitthvað verið að því af minni hálfu að senda þeim þetta lögfræðilega skjal, hvað má þá segja um dóminn sem þeir kváðu upp.“

Hér fyrir neðan má sjá minnisblað Jóns Steinars:

Spurning: Er refsivert að selja hlutabréf ef sá sem selur veit eitthvað (neikvætt) um hlutafélagið sem „markaðurinn“ veit ekki?

Svar: Nei. Þetta er því aðeins refsivert, að um sé að ræða innherjaupplýsingar og sá sem selur teljist vera innherji. (Hér má hafa í huga að verðbréfamarkaður byggist hreinlega á því að þeir sem eiga viðskipti með hlutabréf hafi mismunandi vitneskju og skoðanir um viðkomandi hlutafélag; ekkert er athugavert við þetta nema annar þeirra búi yfir innherjaupplýsingum).

 

Spurning: Hvað eru þá innherjaupplýsingar?

Svar: Þær upplýsingar sem efnislega uppfylla skilgreiningu 120 gr. laganna („nægilega tilgreindar upplýsingar“) og skylt er að birta almenningi samkvæmt 1. mgr. 122. gr. Upplýsingarnar falla aðeins undir skilgreininguna fram að birtingu þeirra (síðari málsliður 121. gr.).

 

Spurning: Voru það innherjaupplýsingar í LÍ, að breskir og hollenskir eftirlitsaðilar með fjármálafyrirtækjum létu í ljós áhyggjur af því að innistæðutryggingakerfi bankans væri ófullnægjandi fyrir hagsmuni innlánseigenda á Icesave reikningum í þessum löndum?

Svar: Nei. Almenningi var kunnugt um hvernig innistæðutryggingakerfi LÍ var fyrir komið. Hugleiðingar og tilmæli hinna erlendu eftirlitsaðila sem lutu að þessu geta ekki hafa verið tilkynningaskyldar, fyrr en þessir aðilar tóku formlegar ákvarðanir innan valdheimilda sinna um að takmarka starfsemi LÍ í þessum löndum. Sjálfsagt hefði LÍ orðið skylt að birta upplýsingar um slíkar ákvarðanir almenningi ef þær hefðu verið teknar.

 

Spurning: Hvað þarf að liggja fyrir til þess að manni verði refsað samkvæmt 123. gr.?

Svar: A. Tilgreina verður nákvæmlega með fullnægjandi rökstuðningi hvaða upplýsingar bar að birta almenningi (vafaatriði ber að túlka sakborningi í hag samkvæmt almennum reglum). B. Hinn sakaði maður verður að teljast hafa verið innherji (121. gr.). C. Sanna verður að hann hafi búið yfir upplýsingunum þegar hann seldi (123.1 gr.).

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert