Fleiri en færri til útlanda í sumar

Íslendingar sóttu mest til sólarstranda á Kanarí og Tenerife í …
Íslendingar sóttu mest til sólarstranda á Kanarí og Tenerife í sumar. AFP

Ríflega sex Íslendingar af hverjum tíu ferðuðust til útlanda í sumar. Þetta kemur fram í þjóðarpúlsi Gallup. Hlutfallið er 61% og hefur hækkað jöfnum skrefum frá árinu 2010, en það sumar ferðaðist þriðji hver Íslendingur til útlanda.

Sex prósentustigum fleiri ferðuðust til útlanda í sumar en í fyrra. Í ljós kemur að fleiri konur (66%) ferðuðust utan en karlar (56%) og þeir sem eru yngri en 30 ára fóru oftast út, þegar horft er til ólíkra aldurshópa.

Tæplega sjö af hverju tíu íbúum höfuðborgarsvæðisins ferðuðust til útlanda í sumar en innan við helmingur fólks sem býr á landsbyggðinni. Þá jókst tíðni ferða eftir menntunarstigi og tekjum.

Framsóknarmenn ferðast innanlands

Í þjóðarpúlsinum var einnig spurt um ferðir innanlands. Hlutfallið reyndist svipað og síðustu ár, eða 73%. Hlutfallslega flestir þeirra sem ferðuðust innanlands myndu kjósa Framsóknarflokkinn, ef kosið yrði nú, eða 83%, en fæstir Sjálfstæðisflokkinn, eða 61%.

Þeir sem ferðuðust til útlanda í sumar gistu að jafnaði 13 nætur á ferðalögum sínum en þeir sem ferðuðust innanlands gistu níu nætur. Það er svipaður fjöldi gistinátta og síðustu ár.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert