Matsmaður metur tjón af friðuninni

Hér er lóðin sem um ræðir. Til stóð að verkinu …
Hér er lóðin sem um ræðir. Til stóð að verkinu myndi ljúka 2018. mbl.is/Ófeigur

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur fallist á að dómkvaddur matsmaður muni meta kostnað vegna tilvistar tveggja sjóvarnargarða við Austurbakka 2, sem friðaðir voru árið 2015. Reykjavík development ehf., sem byggir á svæðinu, telur sig hafa orðið fyrir tjóni vegna friðunar varnargarðanna tveggja, sem fundust á byggingarreitnum sem það er eigandi að. 

Frétt mbl.is: Framkvæmdir við Hafnartorg ganga vel

Á reitnum er verið að byggja 76 íbúðir auk verslunarhúsnæðis, á alls 23.350 fermetrum. Minjastofnun fór árið 2015 fram á leyfi til að rannsaka hvort fornleifar fyndust eftir að vinna hófst við Hafnartorg. Þá komu í ljós tveir gamlir hafnargarðar.

Stofnunin tók ákvörðun um að annar garðurinn skyldi friðaður í skyndi til sex vikna en Sigrún Magnúsdóttir, settur forsætisráðherra í málinu, ákvað síðar að friðlýsa garðinn í heild. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þáverandi forsætisráðherra, hafði talað fyrir friðuninni en vék sæti þegar að afgreiðslu málsins kom. Hann vildi ekki að persóna hans yrði hluti af málinu.

Hinn garðurinn var friðaður sjálfkrafa vegna þess að hann reyndist eldri en 100 ára.

Reykjavík development vill að fjölmargir kostnaðarþættir verði metnir af matsmanni, þar á meðal hversu mikill kostnaður hafi hlotist af hönnunarbreytingum, niðurrifi, flutningi og geymslu hvors garðs um sig, en eins og greint hefur verið frá hefur hver steinn verið númeraður svo hægt sé að setja hann aftur á réttan stað að framkvæmdum loknum. Garðarnir verða þannig endurreistir í þeirri mynd sem þeir fundust.

Fyrirtækið vill fá álit matsmanns á því hvað garðarnir tveir hafi tafið verkið mikið, í mánuðum talið, og hvað þær tafir hafi kostað í formi fjármagnskostnaðar, svo eitthvað sé nefnt. Fyrirtækið vill vita hvað matsmaður áætli að fyrirtækið hafi orðið fyrir miklum útgjöldum vegna eigin vinnu starfsmanna sinna vegna garðanna og hvort tilvist þeirra hafi haft áhrif á verðmæti bílakjallara hússins sem verið er að byggja.

Íslenska ríkið taldi dómkvaðningu matsmanns tilgangslausa og benti á að matsnefnd eignarnámsbóta kæmi til með að ákveða tjónið. Dómurinn benti hins vegar á að ekkert hefði verið gert til að koma málum í farveg þeirrar nefndar.

Ríkið var dæmt til að greiða málskostnað, að upphæð 300 þúsund krónur, en Reykjavík development mun greiða kostnað af öflun matsgerðarinnar og bera áhættuna af því að hún verði nothæf.

Svona gæti svæðið litið út að verki loknu.
Svona gæti svæðið litið út að verki loknu. Teikning/PK arki­tekt­ar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert