Skipulagsbreytingar hjá Eimskip

Ólafur mun hafa aðsetur í Hollandi eftir breytingarnar.
Ólafur mun hafa aðsetur í Hollandi eftir breytingarnar. Mynd/Eimskip

Skipulagsbreytingar voru í dag kynntar hjá Eimskip og eru þær liður í að ná fram aukinni skilvirkni hjá félaginu, að fram kemur í tilkynningu frá félaginu.

Þar segir að laga þurfi skipuritið að þeim breytingum sem verða í umhverfinu á hverjum tíma og styðji það nú við þann vöxt sem hefur verið í flutningakerfum félagsins, samhliða vexti Eimskips á alþjóðavísu.

Meðal þeirra breytinga sem eiga sér stað er að Ólafur William Hand, sem undanfarin ár hefur sinnt starfi forstöðumanns kynningar- og markaðsdeildar og verið upplýsingafulltrúi félagsins, tekur við starfi forstöðumanns markaðsmála á alþjóðasviði félagsins með aðsetur í Hollandi. Ólafur mun áfram sinna starfi upplýsingafulltrúa Eimskips, líkt og undanfarin ár. Ólafur hefur starfað hjá Eimskip frá árinu 2008 en áður starfaði hann fyrir Ferðamálaráð Íslands með aðsetur í New York. Ólafur er með MBA gráðu frá Háskólanum í Reykjavík.

Kynningar- og markaðsdeild félagsins hefur verið sameinuð mannauðssviði undir nafninu Mannauðs- og markaðssvið sem Elín Hjálmsdóttir, núverandi framkvæmdastjóri mannauðssviðs, mun stýra. Með sameiningunni er lögð aukin áhersla á að ná fram skilvirkni við rekstur þessara málaflokka bæði á Íslandi og á alþjóðavísu með vaxandi umfangi félagsins og nýjum áherslum sem fylgja kaupum á fyrirtækjum erlendis. Elín hefur starfað að mannauðsmálum hjá Eimskip frá árinu 2004. Hún er með MBA gráðu og B.Sc. gráðu í viðskiptafræði frá Háskólanum í Reykjavík.

Þá hefur Hallgrímur Björnsson tekið við starfi forstöðumanns markaðsdeildar. Hallgrímur hefur starfað hjá Eimskip frá byrjun árs 2016 og veitt forstöðu fjölbreyttum sérverkefnum tengdum fjárfestingum erlendis en áður starfaði hann í 10 ár í fjármálageiranum. Hallgrímur er með M.Sc. gráðu í hagfræði og fjármálum frá Viðskiptaháskólanum í Kaupmannahöfn, B.Sc. gráðu í hag- og viðskiptafræði frá Viðskiptaháskólanum í Árósum auk þess að vera með löggildingu í verðbréfamiðlun.

Söludeild áætlunarflutninga skipt upp í tvær deildir

Jafnframt hefur söludeild áætlunarflutninga verið skipt upp í tvær deildir, annars vegar söludeild útflutnings, strandflutninga og sérverkefna og hins vegar söludeild innflutnings. Allt frá því að félagið var skráð á markað árið 2012 hefur verið stöðugur vöxtur í inn- og útflutningi. Með ofangreindri breytingu er lögð ríkari áhersla á hvorn þátt fyrir sig og tryggja þannig áfram framúrskarandi þjónustu við viðskiptavini Eimskips.

Sigurður Orri Jónsson hefur verið ráðinn í starf forstöðumanns söludeildar útflutnings, strandflutninga og sérverkefna. Sigurður kemur til félagsins að nýju eftir að hafa sinnt starfi framkvæmdastjóra sölusviðs hjá Skeljungi frá árinu 2015. Árin 2003 – 2015 starfaði Sigurður hjá Eimskip, síðast sem framkvæmdastjóri Eimskips í Danmörku með aðsetur í Árósum. Sigurður er með M.Sc. gráðu í International Business Administration og B.Sc. gráðu í Business Administration frá Háskólanum í Álaborg.

Þá hefur Sara Pálsdóttir tekið við starfi forstöðumanns söludeildar innflutnings. Sara hefur starfað hjá Eimskip frá árinu 2011, fyrst sem rekstrarstjóri Herjólfs og síðar á flutningasviði þar sem hún hefur bæði unnið við sölu og þjónustu. Áður starfaði Sara sem sérfræðingur hjá Reckett Benckiser og hjá Landsbankanum í London.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert