Styrkja sjálfið í gegnum listir

Heiðursverðlaunahafarnir. Björt Sigfinnsdóttir, Aðalheiður Borgþórsdóttir, Hilmar Guðjónsson og Ólafur Daði …
Heiðursverðlaunahafarnir. Björt Sigfinnsdóttir, Aðalheiður Borgþórsdóttir, Hilmar Guðjónsson og Ólafur Daði Eggertsson, sem eru í stjórn LungA, ásamt Guðna Th. Jóhannessyni, forseta Íslands, og Önnu R. Möller, starfsmanni Erasmus, lengst t.h., við afhendinguna í síðustu viku.

LungA – Listahátíð ungs fólks á Austurlandi hlaut nýverið heiðursviðurkenningu Erasmus+. Viðurkenningin var veitt í tilefni af 30 ára afmæli Erasmus+ í ár, á afmælishátíð samtakanna sem var haldin í Hörpu í síðustu viku.

LungA hefur í meira en áratug nýtt sér fjölbreytta styrki í æskulýðshluta Erasmus+ til að byggja upp fjölþjóðlega listahátíð og LungA skólann, fyrsta listalýðháskóla á Íslandi. Í skólanum er unnið út frá hugmyndafræðinni um styrkingu sjálfsins í gegnum listir og skapandi vinnu.

Björt Sigfinnsdóttir, framkvæmdastjóri LungA, segir þau hafa verið í samstarfi við Erasmus+ síðan 2006 þegar þau sóttu um styrk fyrir fyrsta verkefninu og síðan þá hafi þau unnið ellefu önnur verkefni saman. „Heiðursviðurkenningin er fyrir alla þá vinnu sem við höfum unnið í þágu ungs fólks í samstarfi við Erasmus+ síðustu 12 árin. Þetta er heljarinnar viðurkenning á okkar starfi,“ segir Björt. „Þessi verkefni hafa verið byggð í kringum ungmennaskiptaverkefni hjá okkur. Við höfum verið að fá til okkar um 60 nemendur á hverju ári, víðsvegar að úr heiminum, sem taka þátt í sérstakri vinnusmiðju í byrjun hátíðarinnar sem við köllum LungA LAB sem og listasmiðjum LungA. Auk ungmennaskiptaverkefnisins býður LungA LAB-ið meðal annars upp á opna fyrirlestra, málstofur og viðburði á hátíðinni í tengslum við þema hvers árs, en við höfum til dæmis tekið fyrir þemu á borð við samkennd, egó, menningu og við stefnum á að kyn/gender verði þema næsta árs. Svo árið 2014 fengum við styrk fyrir LungA skólanum sem tók til starfa sama ár.“

Nú er LungA orðið mjög stór hluti af samfélaginu á Seyðisfirði og Björt segir að margir sem hafi komið í LungA skólann eða á hátíðina hafi ílengst í bænum. „Þetta skiptir samfélagið máli og tilvera skólans gerir það að verkum að nú er rekinn veitingastaður þar árið um kring og farfuglaheimilið fær tekjur á ársgrundvelli en það koma um 20 ungmenni þarna á hverri önn sem annars væru ekki á svæðinu,“ segir Björt, en LungA skólinn er starfræktur þrjá mánuði á haustin og þrjá á vorin og svo er hátíðin á sumrin.

Vaxa og dafna áfram

Björt sér LungA dafna áfram. „Ég hugsa að hátíðin muni halda áfram að vaxa, ekki endilega í stærð því við erum mjög ánægð með stærðina eins og hún er, heldur í gæðum og í hlutverki þess sem vekur til umhugsunar. Ég hugsa að fræðslustarfið muni vaxa og verða töluvert öflugra í framtíðinni.“

Á afmælishátíð Erasmus+ voru jafnframt veittar gæðaviðurkenningar Erasmus+ fyrir framúrskarandi Evrópuverkefni og hlutu sex verkefni, sem hafa verið styrkt af áætluninni, viðurkenningarnar í ár. Skólarnir og stofnanirnar sem hlutu viðurkenningar eru Listaháskóli Íslands, Skólaþjónusta Árborgar, Tækniskólinn, EVRIS, Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra og Leikskólinn Holt.

Hugmyndaríkt rifrildi

Björt og móðir hennar, Aðalheiður Borgþórsdóttir, komu LungA-hátíðinni á Seyðisfirði á koppinn árið 2000 ásamt Halldóru Malín, Stefáni Benedikt og Ólafi Ágústssyni.

Hugmyndin kviknaði eftir rifrildi þeirra mæðgna á milli. „Ég var 15 ára á þessum tíma og fannst Seyðisfjörður skítapleis. Mig langaði að flytja til Egilsstaða því þar var starfrækt leikfélag og annað sem mér þótti spennandi. Mömmu fannst ekki góð hugmynd að ég myndi flytja og stakk upp á að við myndum frekar gera eitthvað til að breyta stöðunni á Seyðisfirði. Þá höfðum við samband við þau hin og byrjuðum í þróunarvinnunni að LungA.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert