Tvær konur handteknar eftir símaat

Slökkvilið og lögregla hófu leit að einstaklingi á staðnum og …
Slökkvilið og lögregla hófu leit að einstaklingi á staðnum og voru hitamyndavélar notaðar við leitina og kafarar sendir á vettvang, áður en upp komst að um símaat væri að ræða. mbl.is/Hjörtur

Tilkynning sem barst neyðarlínunni í kvöld um að einhver hefði farið í sjóinn úti fyrir Laugarneshverfinu reyndist vera gabb. Slökkvilið og lögregla hófu leit að einstaklingi á staðnum og voru hitamyndavélar notaðar við leitina og kafarar sendir á vettvang, áður en upp komst að um símaat væri að ræða.

Í fréttatilkynningu sem lögregla sendi frá sér vegna málsins segir að lögregla, slökkvilið og sjóflokkar björgunarsveita voru kölluð út með hæsta forgangi, í ljósi alvarleika tilkynningarinnar.

„Eftir að enginn fannst var reynt að ná í tilkynnanda aftur en fljótt eftir það kom upp sá grunur að um gabb væri að ræða,“ segir í tilkynningunni.

Lögreglan hafi í kjölfarið handtekið tvær konur á fertugsaldri vegna málsins og eru þær vistaðar í fangaklefa og bíða yfirheyrslu.

„Ég hlustaði á upptökuna og þetta var mjög vel leikið,“ segir Stefán Kristinsson, varðstjóri hjá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu. Málið sé nú í höndum lögreglu, sem viti hver viðkomandi einstaklingur er og sá sé búinn að gangast við símaatinu.

Stefán segir atvik á borð við þetta vera stóralvarlegt. „Við erum að senda bíla hérna í forgangi og hér eru kallaðir út bátar og það átti að gera jafnvel klára þyrlu í leitina, þannig að það verður tekið á þessu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert