BBC dáist að árangri Íslands

Fögur mynd er dregin upp af íslenskum ungmennum í umfjöllun …
Fögur mynd er dregin upp af íslenskum ungmennum í umfjöllun BBC. Myndin er úr safni. mbl.is/Eggert

BBC fjallar um það í nýju myndbandi hvernig íslenska þjóðin hefur fengið unglinga til að gefa vímuefni upp á bátinn. Á meðal þeirra lykilþátta sem taldir eru upp í myndbandinu, sem segja má að sýni árangur Íslands í forvarnamálum í mjög jákvæðu ljósi, eru frístundastyrkir og reglur um útivistartíma. Fram kemur að á fjórða tug evrópskra borga vinni nú að forvörnum að íslenskri fyrirmynd.

Í myndbandinu er sagt að unglingar á níunda og tíunda áratugnum hafi verið stjórnlausir. Árið 1998 hafi 42% fimmtán og sextán ára unglinga drukkið sig fulla. Drykkja hafi verið gífurlegt vandamál en hlutfallið í dag sé 5%. „Á 20 árum hefur Reykjavík farið úr því að vera versta borgin í Evrópu í það að vera sú besta,“ segir Dagur B. Eggertsson borgarstjóri í myndbandinu.

Þættirnir fimm

Fjallað er um að þetta hafi breyst fyrir tilstilli fimm þátta.

  • Í fyrsta lagi eru reglur um útivistartíma nefndar. Börn yngri en 16 ára verði að vera innandyra eftir klukkan tíu á kvöldin. Fram kemur að í sumum hverfum gangi foreldrar um götur til að fylgjast með því að reglunum sé fylgt. Rætt er við foreldri barns í Hörðuvallaskóla í Kópavogi, sem í félagi við aðra foreldra voru að undirbúa göngu um hverfið.
    Árangur í íþróttum og tónlist er rakinn til viðsnúnings í …
    Árangur í íþróttum og tónlist er rakinn til viðsnúnings í neyslu ungmenna á vímuefnum. mbl.is/Getty Images
  • Í öðru lagi er nefnt að foreldrar skuldbindi sig með því að skrifa undir reglur sem börnin þeirra verði að fylgja. Dæmi um slíkar reglur sé að börnin drekki ekki áfengi og að þau verji meiri tíma með foreldrum sínum.

  • Í þriðja lagi eru frístundastyrkir borgarinnar nefndir. Þar kemur fram að borgin endurgreiði hverju barni íþrótta- og tómstundaiðkun að 50 þúsund krónum árlega. Rætt er við nokkur ungmenni í myndbandinu, sem lýsa því hvað þau aðhafast eftir skóla.

  • Í fjórða lagi er talað um árlegar rannsóknir sem gerðar séu á líðan barna í skólanum, notkun þeirra á vímuefnum og annað slíkt. Fullyrt er að um sé að ræða lykilbreytu í þeim árangri sem náðst hafi. Öll sveitarfélög fái niðurstöðurnar innan tveggja vikna frá fyrirlagningu spurningaprófsins.

  • Í fimmta og síðasta lagi er talað um mikilvægi þess að sannfæra stjórnmálamenn um að fjármagna verkefnin. Fullyrt er að Reykjavíkurborg verji 100 milljónum dollara, 10,4 milljörðum króna, í íþrótta- og tómstundastarf barna og unglinga. Mbl.is hafði samband við Dag og spurði hvort hann vissi hvaðan þessi upphæð er fengin. Hann sagðist ekki vita það í fljótu bragði en velti því upp hvort þetta ætti við landið allt. „Upphæðirnar eru þó fljótar að koma ef verið er að horfa á íþrótta- og æskulýðsmál, ég tala ekki um ef tónlistarskólum er bætt við (allt skipulagt æskulýðsstarf). Framlög til þessara þátta í sveitarfélögum eru sannarlega ótrúleg miðað við nágrannalönd.“

Fjármögnun mikilvæg

Í myndbandinu segir Dagur að mikilvægt sé að byggja þær aðgerðir sem ráðist sé í á staðreyndum og rannsóknum. „Næsta skref er að fjármagna verkefnin og ræða málin við foreldra, skólana og frístundaheimilin; alla sem að málum koma,“ segir Dagur.

Loks er tekið fram að 35 borgir Evrópu vinni nú að íslenskri fyrirmynd í þessum efnum. Minnkandi unglingadrykkja hafi á Íslandi haft í för með sér árangur í tónlist og íþróttum. „Við unnum líklega England á Evrópumótinu vegna þessa prógrams,“ segir Dagur og hlær.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri segir mikilvægt að fjármagna verkefnin, en …
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri segir mikilvægt að fjármagna verkefnin, en þau verði að byggja á vísindum. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert