Nafnið „Gleði“ kom til mín eins og elding

Engilbert Arnar hefur stofnað sína eigin Costco síðu.
Engilbert Arnar hefur stofnað sína eigin Costco síðu. Haraldur Jónasson / Hari

„Hugmyndin er ekki sú að stofna stærstu Costco-síðu landsins heldur skemmtilegustu Costco-facebooksíðu landsins,“ segir Engilbert Arnar Friðþjófsson sem margir kannast eflaust við úr facebookhópnum Keypt í Costco Ísl. myndir og verð, þar sem hann hefur verið duglegur við að birta myndir og upplýsingar um vörur úr verslunninni síðustu vikur.

Hann hefur nú búið til sína eigin facebooksíðu til að birta upplýsingarnar, en markmið hans með uppátækinu er eingöngu að gleðja aðra, líkt og fram kom í viðtali við hann á mbl.is fyrir rúmri viku. Á nýju síðunni gilda hans eigin reglur og þar verður engin leiðinleg ritskoðun. Þegar þetta er ritað telur hópurinn um 6.000 manns, en hann stækkar ört.

„Ég fór út í það að stofna minn eigin facebookhóp: COSTCO – Gleði, vegna þess að á tímabili setti ég inn marga skemmtilega pósta í hópinn: Keypt í Costco Ísl. myndir og verð, sem vöktu fljótlega mikla athygli. Sumum fannst þetta hins vegar vera of mikið og á einum tímapunkti myndaðist umræða um að henda mér út úr hópnum. Margir innan hópsins tóku það þó ekki í mál og sögðu að ég hefði gert hópinn virkan aftur.“

Vaknaði upp úr klukkan fimm um nótt

Engilbert tók hins vegar ákvörðun um að draga úr virkni sinni á síðunni til að fleiri gætu komið sínum færslum á framfæri. „Ég tek það fram að ég ber jafn mikla virðingu fyrir póstunum þeirra eins og mínum, enda tel ég mig ekki vera betri en einhver annar. En þá fyrst hugsaði ég um að það gæti verið góð hugmynd að vera með mína eigin Costco-facebooksíðu.“

Engilbert er þakklátur fyrir viðtökurnar við síðunni.
Engilbert er þakklátur fyrir viðtökurnar við síðunni. Haraldur Jónasson / Hari

Þegar hann fór svo að fá fyrirspurnir um það frá ókunnugu fólki hvort hann myndi ekki bara stofna sínu eigin síðu fór hann að hugsa það af alvöru. „Ég fór þá að hugsa þessa hugmynd aðeins lengra og eina nóttina vaknaði ég klukkan fimm þegar nafnið „Gleði“ kom til mín eins og elding,“ segir Engilbert. Hópurinn fékk því nafnið COSTCO – Gleði, sem er mjög viðeigandi í ljósi tilgangsins.

„Ég vil ekki leiðinlega ritskoðun. Ég vil reyna gera þetta aðeins jákvæðara og um leið veita fólki frelsi, þannig að við getum öll upplifað skemmtilega gleði.“

Þakklætið skiptir mestu máli 

Viðtökurnar við síðunni hafa farið fram úr hans björtustu vonum, en fyrsta daginn báðu um 2.000 manns um aðgang að síðunni. „Daglega er nýtt og skemmtilegt fólk að bætast í hópinn og erum við að nálgast 6.000 manns. En það sem mestu máli skiptir er þakklæti til þeirra sem eru virkir og taka þátt í gleðinni með okkur, því ég gæti aldrei gert þetta skemmtilegt einn.“

Þrátt fyrir að Engilbert sé hrærður yfir viðtökunum og glaður yfir því hve ört hópurinn stækkar tekur hann bara einn dag í einu. „Ég ætla að leyfa mér að vera þakklátur en með hjálp hvert annars getum við haldið áfram að dreifa gleðinni, verið jákvæð og gert þetta að skemmtilegustu Costco-síðu landsins,“ segir Engilbert glaður í bragði að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert