Reyna oft að geta í eyðurnar

„Það er ósanngjarnt að brotaþoli eigi einn séns og er …
„Það er ósanngjarnt að brotaþoli eigi einn séns og er galli á rannsókninni. Þessu þarf að breyta,“ segir Sigrún Jóhannsdóttir réttargæslumaður brotaþola. mbl.is/Ófeigur

Brotaþoli í kynferðisbrotamáli er oftast boðaður í eina skýrslutöku eftir brotið fyrir utan fyrstu skýrsluna sem lögreglan tekur af brotaþola við komuna á neyðarmóttökuna eða á lögreglustöð. Þessi skýrslutaka sem brotaþoli er boðaður í er í raun eina tækifæri hans til að koma frásögn sinni til skila.

Það er ósanngjarnt að brotaþoli eigi einn séns og er galli á rannsókninni. Þessu þarf að breyta,“ segir Sigrún Jóhannsdóttir, hdl., eigandi á Lögvís lögmannsstofu og réttargæslumaður brotaþola, í erindi sínu á málþinginu „Brotaþolar í kynferðisbrotamálum - Hvernig gerum við betur?“ sem Orator, félag laganema við Háskóla Íslands, stóð fyrir í dag. 

Sigrún tekur fram að rannsókn þessara mála hverfist oft of mikið í kringum vitnisburð brotaþola sem er oftar en ekki ekki í stakk búinn til að koma heillegri frásögn til skila í skýrslutöku eftir ofbeldið. Í slíkum brotum koma upp sálræn varnarviðbrögð líkamans sem hafa talsverð áhrif á minni brotaþola. Dæmi um ósjálfráð viðbrögð brotaþola eru til dæmis að minnið verður brotakennt, hugsunin þrengist og einkennist af rörsýn og sumir afneita verknaðinum eða gera lítið úr honum skömmu eftir hann. Hún líkti minni brotaþola við púsluspil sem væri þeytt upp í loftið og bitarnir féllu niður tvist og bast sem hann reyndi að raða saman.    

Sigrún Jóhannsdóttir hdl., eigandi á Lögvís lögmannsstofu og réttargæslumaður brotaþola.
Sigrún Jóhannsdóttir hdl., eigandi á Lögvís lögmannsstofu og réttargæslumaður brotaþola. ljósmynd/Úr einkasafni

Frásögnin brotakennd

„Oft er mikil hætta að brotaþoli reyni að geta í eyðurnar um hvað gerðist. Það getur haft neikvæð áhrif á trúverðugleika á framburð hans. Hann verður oft stressaður og gleymir. Það er margt sem virkar ótrúverðugt en á sér fullkomlega eðlilegar sálfræðilegar skýringar því er mikilvægt að gefa sálfræðinni betur gaum,“ segir Sigrún og bendir á að það sé hagur allra að öll frásögnin komist til skila. Hún segir þessa skýrslu vera notaða alltof oft gegn brotaþola í málinu og slíkt sé ósanngjarnt. 

Sigrún vill sjá breytingar á þessu fyrirkomulagi og gefa brotaþola kost á að fara í aðra skýrslutöku. Eins ætti brotaþoli að sitja við sama borð og sakborningur í málinu þ.e.a.s. að hann fái að sjá vitnisburð sakbornings og gera athugasemdir við hann. Vitnisburður brotaþola er borinn undir sakborning í málinu en því er ekki öfugt farið. Hins vegar fær brotaþoli að sjá vitnisburð sakbornings nokkrum árum síðar.

Erindi Sigrúnar var um upplifun brotaþola kynferðisbrota af réttarkerfinu og hvað skiptir þá mestu máli auk hlutverks réttargæslumanna í kynferðisbrotamálum.

Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari.
Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari. mbl.is/Hanna Andrésdóttir

Rödd brotaþola vegi meira

Kolbrún Benediktsdóttir, varahéraðssaksóknari, fjallaði um hvert hlutverk saksóknara er í þessum málaflokki og hvernig megi bæta aðgengi og aðkomu brotaþola að málunum. Kolbrún sat jafnframt í samráðshópi dómsmálaráðuneytisins um meðferð kynferðisbrota innan réttarvörslukerfisins.

Kolbrún benti á að að staða brotaþola, aðkoma og staða þeirra er ekki nægilega skýr og góð er varðar þeirra hagsmuni. Hún tók sem dæmi tvö mál þar sem hið opinbera var ákæruvaldið í máli brotaþola.

Í öðru þeirra var gróft líkamlegt og kynferðislegt ofbeldi að ræða. Þegar fer að líða rannsókn málsins á vill brotaþoli, stúlkan, draga málið til baka og segir að ekki hafi verið um kynferðisbrot að ræða. Hún kemur fyrir dómi að segir að hún hafi verið beitt ofbeldi en ekki kynferðisofbeldi. Þrátt fyrir að þrjár ítarlegar skýrslur liggja fyrir þar sem hún lýsir háttseminni með þessum hætti.

Ekki var tekið tillit til þess þegar dómur féll og var sakborningur sakfelldur bæði fyrir líkamlegt ofbeldi og kynferðisofbeldi.    

Brotaþolar oft með lítið vald 

„Brotaþolar hafa lítið vald. Þetta getur líka þýtt að lögregla, ákæruvald geta farið áfram með mál í óþökk brotaþola,“ segir Kolbrún. Hún tekur fram að hið opinbera eigi að halda áfram að stíga inn í slík mál. Hins vegar megi taka meira tillit til frásagna brotaþola í slíkum málum.

Kolbrún bendir á að margt hafi breyst til batnaðar í réttarkerfinu fyrir brotaþola og nefnir sem dæmi réttargæslumann brotaþola sem er skipaður af ríkinu. Einnig hefur kæruleið í kynferðisbrotamálum batnað þar sem hægt að kæra niðurfellingar kynferðisbrotamála héraðssaksóknara til ríkissaksóknara. Þrátt fyrir það megi margt bæta. 

María Rut Kristinsdóttir, sérfræðingur í dómsmálaráðuneytinu og formaður samráðshóps um …
María Rut Kristinsdóttir, sérfræðingur í dómsmálaráðuneytinu og formaður samráðshóps um meðferð kynferðisbrota innan réttarvörslukerfisins, sem skilað skýrslu og aðgerðaáætlun til dómsmálaráðherra, Sigríðar Á. Andersen, 16. október síðastliðinn. mbl.is/Eggert

Lykilatriði að stytta málsmeðferðartímann

„Það er lykilatriði að stytta málsmeðferðartíma kynferðisbrota en þau taka að meðaltali um tvö ár í kerfinu. Það er of langt,” segir María Rut Kristinsdóttir, sérfræðingur í dómsmálaráðuneytinu og formaður samráðshóps um meðferð kynferðisbrota innan réttarvörslukerfisins, sem skilað skýrslu og aðgerðaáætlun til dómsmálaráðherra, Sigríðar Á. Andersen, 16. október síðastliðinn.

Þegar hefur verið ráðist í margar aðgerðir á áætluninni til dæmis Bjarkahlíð en enn er margt eftir. Hún nefndir sem dæmi að hægt sé að nýta réttargæslumenn betur og veita brotaþolum betri upplýsingar.

Í kynferðisbrotamálum þurfa að vera virkari úrræði fyrir sakborninga í boði, að sögn Maríu Rutar. „Við viljum minnka líkur á ítrekunarbrotum sakborninga og að þeir fái viðeigandi stuðning eins og hefur gefið góða raun t.d. í Kanada og Bretlandi. Við sjáum áhættuhópinn og við þurfum að bregðast við honum.“

Í vinnu sinni við skýrsluna áttaði hún sig meðal annars á að engar langtímaáætlanir og forvarnir væru í þessum málflokk. Í því samhengi benti hún á að þriðjungur sakborninga í þessum málum væru börn. „Við þurfum að gera áætlanir og stunda forvarnir í stað þess að plástra kerfið,“ segir María Rut. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert