Þau detta út af radarnum

Margrét Lilja Guðmundsdóttir
Margrét Lilja Guðmundsdóttir

Samfélagið í heild sinni fylgist ekki nógu vel með ungmennum sem hætta í skóla og eru jafnvel líka utan vinnumarkaðar. Þau detta þá út af radarnum og of lítið er vitað um hagi þessa hóps. Þetta er meðal þess sem fram kom á morgunverðarfundi samtakanna Náum áttum sem haldinn var á Grand hóteli í Reykjavík í morgun. Fundurinn bar yfirskriftina Ungmenni utan skóla - hagir og úrræði og þar var rætt um brottfall úr framhaldsskólum frá ýmsum sjónarhonum.

Margrét Júlía Rafnsdóttir, verkefnastjóri hjá Barnaheillum - Save the children, var fundarstjóri og í upphafi fundarins greindi hún frá því að að ríki Evrópu hafa sett sér markmið um að brottfallið fari ekki yfir 10%. „Við erum enn í 19% og það er verk að vinna hjá okkur,“ sagði Margrét Júlía.

Margrét Guðmundsdóttir kennari á íþróttasviði HR og sérfræðingur hjá Rannsóknum og greiningu (R og G) ræddi um þann hóp ungmenna sem hvorki er í skóla né vinnu og sagði frá rannsóknum R og G sem sýna að 95-96% ungmenna eru í skóla við 16 ára aldur en þegar þau eru orðin 19 ára er hlutfallið 70%.

Margrét Guðmundsdóttir á fundinum í morgun.
Margrét Guðmundsdóttir á fundinum í morgun. mbl.is/Eggert

Margrét sagði frá niðurstöðum fleiri rannsókna sem sýna að þegar ungmenni, sem höfðu hætt í skóla voru spurð um ástæður þess, voru þær sem oftast voru nefndar lesblinda, athyglisbrestur, að leiðast í skóla, að vanta vasapeninga og vímuefnaneysla.

„Það er mjög erfitt að vera efnalítill framhaldsskólanemi, kröfurnar um að eiga allt eru svo miklar og það er ekkert námslánakerfi eða nokkuð annað sem heldur utan um þessa krakka eða getur hlaupið undir með þeim á nokkurn hátt,“ sagði Margrét.

Hún kom einnig inn á niðurstöður rannsókna R og G sem sýna aukningu á vanlíðan meðal barna og ungmenna á Íslandi. Ungmenni sem eru ekki í skóla eru frekar einmana en þau sem eru í námi og hærra hlutfall þeirra metur andlega og líkamlega heilsu sína sæmilega eða lélega, samkvæmt þessum rannsóknum. Þá neyta þau frekar vímuefna en þau sem eru í skóla.

„Við sjáum þunglyndis- og kvíðaeinkenni hjá mjög ungum börnum. Það er erfitt að segja hvaða þættir eru áhrifaþættir og hvaða þættir eru verndandi þættir. Margt spilar inn í,“ sagði Margrét og nefndi þar samskiptamiðla, skort á svefni og að upplifa stríðni á netinu. 

Náum áttum er samstarfshópur um fræðslu- og forvarnarmál og aðild að hópnum eiga m.a. Barnaheill, Barnaverndarstofa, Embætti landlæknis, IOGT á Íslandi, lögreglan á höfuðborgarsvæðinu, umboðsmaður barna og fleiri aðilar

Frá fundinum í morgun.
Frá fundinum í morgun. mbl.is/Eggert
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert