Íhuga að opna aftur fyrir umsóknir

Ágúst Arnar Ágústsson segir að málið hafi tekið á.
Ágúst Arnar Ágústsson segir að málið hafi tekið á. Ljósmynd/Aðsend

„Mjög líklegt“ er að trúfélagið Zuism muni aftur opna fyrir umsóknir um endurgreiðslu sóknargjalda fyrir síðustu tvö ár. Þetta segir Ágúst Arnar Ágústsson, forstöðumaður félagsins, í samtali við mbl.is. Eins og mbl greindi frá í morgun vildi forstöðumaðurinn ekki upplýsa hversu margir hefðu fengið sóknargjöldin endurgreidd eða hversu há upphæð hefði verið greidd út. Fram hefur komið að félagið hafði úr meira en 50 milljónum króna að spila.

Mbl ræddi aftur við Ágúst og spurði hvers vegna sú leið hefði verið farin að gera kröfu um að meðlimir trúfélagsins þyrftu að sækja um endurgreiðsluna sérstaklega. Ágúst svarar því til að það hafi verið gert til að fá nauðsynlegar bankaupplýsingar til að standa að endurgreiðslunni. Spurður hvernig staðið hafi verið að því að auglýsa þetta fyrirkomulag segir Ágúst að tilkynning þess efnis hafi verið send á alla fréttamiðla sem fjallað hafi um málefni félagsins. Þá hafi tilkynning verið sett upp á heimasíðu Zuism og Facebook-síðu trúfélagsins. Hann bendir á að félagið hafi verið nokkuð mikið til umfjöllunar í fjölmiðlum.

Þá fullyrðingu má til sanns vegar færa. Mikil átök stóðu um félagið undanfarin tvö ár, en um tíma var óljóst hver færi með stjórn þess. Tveir hópar gerðu tilkall til félagsins en úr þeirri deilu var skorið fyrr í haust. Þá var Ágúst sjálfur í fréttum vegna rannsóknar vegna meintra fjársvika, en því skal haldið til haga að sú rannsókn leiddi ekki til ákæru gegn honum.

Samstarfsfélagi hans og bróðir var hins vegar ákærður og fyrr á árinu dæmdur til þriggja ára fangelsisvistar fyrir fjársvik. Það mál snerist um peninga sem fólk lagði í fjárfestingasjóð sem ekki var starfræktur. Brotavilji bróður hans þótti einbeittur og brot hans „skipulögð og úthugsuð“. Ítrekað skal að Ágúst var ekki ákærður.

„Ekkert grín að vera með þetta“

Spurður hvort hann hafi ekki skilning á því að meðlimir trúfélagsins vilji vita með hvaða hætti fjármunum félagsins sé ráðstafað – í ljósi forsögu málsins – svarar Ágúst því til að peningarnir séu eign félagsins, en ekki hans sjálfs. Hann viðurkennir að málið hafi í heild sinni tekið á. „Það er ekkert grín að vera með þetta en ég skorast ekkert undan ábyrgð á því. Ég er að vinna í þessu.“

Hann segir að hann sé nú að skoða að opna aftur fyrir umsóknir um endurgreiðslu. Ákvörðun um það muni liggja fyrir fljótlega. „Það er mjög líklegt að svo verði,“ segir hann. Spurður hvers vegna félagið vilji ekki upplýsa um hversu margir fengu endurgreitt eða hversu há upphæð var greidd út segir Ágúst nú að það mál sé í skoðun. Hann sé nú að einbeita sér að því að ráðstafa fé til góðgerðamála og undirbúa námsstyrki sem meðlimum gefst kostur á að sækja um. Þar verði hægt að sækja um endurgreiðslu á skólabókum og innritunargjöldum í skóla.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert