Kæruleysis gætir í notkun tungumálsins

Það þýðir ekki að sofna á verðinum þegar íslenskan er …
Það þýðir ekki að sofna á verðinum þegar íslenskan er annars vegar. mbl.is/Eggert

Íslensk tunga hefur löngum verið Guðrúnu Egilson hugleikin. Hún vann sem íslenskukennari í tæplega þrjá áratugi, var málfarsráðgjafi fréttastofu Ríkisútvarpsins í fjölmörg ár og er líklega einn elsti pistlahöfundur landsins en hún hefur ritað um íslenskt mál í Morgunblaðið nánast samfellt frá árinu 1980 til dagsins í dag. Á þessum degi, degi íslenskrar tungu, er því við hæfi að slá á þráðinn til hennar og ræða um stöðu tungumálsins.

„Ég er svolítið ráðvillt í þessu. Ég kenndi árum saman og var ekki vör við annað en að þetta félli í góðan jarðveg en mér sýnist vera að halla undan fæti og fólk vera orðið kærulausara,“ segir Guðrún spurð um stöðu tungumálsins í dag.

Hún bendir á að meiri áhrifa frá ensku gæti á íslenskt mál í dag. Hvort tveggja eru enskuslettur áberandi í töluðu máli og einnig áhrif enskrar orðaraðar í rituðu máli.

Guðrún Egilson íslenskufræðingur.
Guðrún Egilson íslenskufræðingur. Ljósmynd/Aðsend

Sletta enskum hugtökum í útvarpi

„Dagskrárgerðarmenn [einkum útvarps] og þeir sem koma til viðtals við þá sletta meira og eru kærulausari. Mér finnst þetta hafa breyst á síðustu fimm árum. Ég skil flest af þessum erlendu orðum sem eru notuð en ég er ekki viss um að þjóðin þekki þau,“ segir Guðrún. Spurð hvort hún tengi þetta við einhverja tiltekna starfsgrein umfram aðra nefnir hún menninguna sem dæmi.

„Það er ekki síst menningin. Fólk notar slettur þegar það talar til dæmis um leikrit og skáldsögur og flaggar erlendum hugtökum sem fólki er ekki tamt að nota,“ segir Guðrún.

Guðrún tekur fram að í starfi sínu sem málfarsráðgjafi á Ríkisútvarpinu hafi blaðamenn verið metnaðarfullir og þeir lagt sig fram um að skrifa góða íslensku. „Ef þeir voru í minnsta vafa leituðu þeir til mín og létu mig lesa yfir. Þeir voru hinir kátustu með að fá ábendingar,“ segir Guðrún.  

Megum heldur ekki vera of svartsýn

Ensk orðaröð er einnig orðin meira áberandi en hún var í rituðum texta. „Ég skil þetta vel eins og hraðinn er mikill á fjölmiðlum,“ segir Guðrún en tekur fram að það megi alls ekki sofna á verðinum. „En við skulum samt ekki vera of svartsýn. Okkur hættir alltaf til að einblína á það neikvæða og það sem fer í taugarnar á okkur,“ segir hún létt í bragði.

Hún er bjartsýn og tekur sem dæmi að unga kynslóðin sé frjó og skapandi. „Það er margt skapandi gert á íslensku,“ segir Guðrún og nefnir sem dæmi fjölmarga unga rithöfunda sem stíga fram með metnaðarfull ritverk.

Ætlar ekki að hætta með Tungutakið

Eins og fyrr segir hefur Guðrún skrifað í Morgunblaðið frá árinu 1980. Það ár bað Gísli Sigurðsson, þáverandi ritstjóri Lesbókar Morgunblaðsins, hana um að skrifa í blaðið. Guðrún hefur haldið því áfram og síðustu ár hefur hún skrifað um íslenskt mál í dálkinum Tungutak sem birtist í laugardagsblaði Morgunblaðsins. Hún hefur enn ánægju af skrifunum og hyggst ekki hætta því enda kemur hún sífellt auga á eitthvað sem vert er að velta fyrir sér í tungumálinu. 

Guðrún viðurkennir að stundum hafi álagið verið talsvert þegar hún sinnti fullri kennslu við Verslunarskóla Íslands, var málfarsráðgjafi á RÚV og skrifaði pistlana. „Ég vildi alls ekki sleppa því að skrifa fyrir blaðið. Núna eftir að ég hætti að kenna hef ég rýmri tíma til að skrifa og nýt þess.“

Gefandi að kenna börnum með erlendan uppruna íslensku

„Ég verð samt að segja þér eitt,“ segir Guðrún sposk. „Eftir að ég hætti að vinna er ég sjálfboðaliði við að kenna erlendum börnum að læra íslensku í samstarfsverkefni Rauða krossins og Borgarbókasafnsins. Það er dásamlegt að kenna börnunum og þetta er þakklátt starf,“ segir Guðrún.

Hún segir börnin duglega nemendur og fljót að læra. „Ég er ekki vör við að þau sletti á ensku,“ segir hún, hæstánægð með nýjustu Íslendingana sem ekki má gleyma, því þeir taka við keflinu og halda áfram að miðla tungumálinu til næstu kynslóða.   

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert